„Leti er það hættulegasta sem til er“

Stefán Þorleifsson, 102 ára kylfingur, var á meðal keppenda á …
Stefán Þorleifsson, 102 ára kylfingur, var á meðal keppenda á Landsmóti UMFÍ 50 ára og eldri sem fram fór í Neskaupstað um helgina. Hann segir mót líkt og þetta hvetja fólk til að halda þreki, stunda útivist og gera æfingar til að vinna gegn öldrun. Ljósmynd/UMFÍ

Stefáni Þor­leifs­syni, 102 ára kylf­ingi, var fagnað eins og þjóðhetju þegar hann steig fæti á golf­völl­inn á Nes­kaupstað í morg­un þar sem hann keppti í pútti á Lands­móti UMFÍ 50 ára og eldri sem fram fór í bæn­um um helg­ina.

„Það er frá­bært þegar fólk fær tæki­færi til að keppa við jafn­ingja sína. Það skipt­ir máli fyr­ir fólk sem er komið á þenn­an ald­ur. En svo hvet­ur svona mót fólk til að halda þreki, stunda úti­vist og gera æf­ing­ar til að vinna gegn öldrun,“ seg­ir Stefán. Alls tóku um 300 manns þátt á mót­inu og er Stefán sá elsti en hann fagn­ar 103 ára af­mæli í ág­úst.

Stefán seg­ir mik­il­vægt að fólk yfir miðjum aldri og eldri borg­ar­ar stundi íþrótt­ir. „Það gild­ir eins með eldri borg­ara og aðra sem vilja halda góðri heilsu, að hafa vit á því að hreyfa sig. Það er hættu­legt að liggja alltaf og hvíla sig í ell­inni. Þvert á móti. Hreyf­ing er besta meðalið,“ seg­ir hann.

Stefáni var fagnað eins og þjóðhetju þegar hann steig fæti …
Stefáni var fagnað eins og þjóðhetju þegar hann steig fæti á golf­völl­in á Nes­kaupstað í morg­un þar sem hann keppti í pútti. Ljós­mynd/​UMFÍ

Hef­ur aðeins einu sinni orðið drukk­inn

Stefán þakk­ar það for­eldr­um sín­um og genun­um hvað hann hef­ur náð háum aldri auk heilsu­sam­legs lífern­is.

„Ég þekki marga sem hafa drepið sig á reyk­ing­um. En ég hef aldrei reykt. Síðan hef ég aðeins einu sinni orðið drukk­inn. Það gerðist þegar ég var tví­tug­ur og lofaði að gera það aldrei aft­ur. Ég hef staðið við það,“ seg­ir Stefán en bæt­ir við að það skipti líka sköp­um að eiga góðan maka, góð börn og búa í sam­fé­lagi sem hlúi að öðrum.

„Það skipt­ir máli að búa í sam­fé­lagi þar sem eng­inn er skil­inn út und­an, gætt að því hvernig fólki líður og að það sé heil­brigt.“

Stefán var íþrótta­kenn­ari og ein­beitti sér að íþrótt­um aldraðra eft­ir að hann komst á ald­ur. Á efri árum hef­ur hann stundað skíði og sund af kappi en nú á golfið hug hans all­an. Golfá­hug­inn er þó alls ekki nýr af nál­inni en hann er einn af stofn­fé­lög­um Golf­klúbbs Norðfjarðar.

Stefán er án efa elsti kylf­ing­ur lands­ins og var hann í skemmti­legu viðtali á golf.is í til­efni af 100 ára af­mæl­inu fyr­ir tæp­um þrem­ur árum þar sem hann sagði meðal ann­ars að keppn­is­skapið væri enn til staðar. 

Hann ger­ir æf­ing­ar á hverj­um degi og tel­ur það skipta höfuðmáli að fólk hafi vit á því að hreyfa sig og ætl­ar ekki að hætta því í bráð. „Leti er það hættu­leg­asta sem til er,“ seg­ir Stefán.

Keppnisskapið er enn til staðar hjá Stefáni.
Keppn­is­skapið er enn til staðar hjá Stefáni. Ljós­mynd/​golf.is
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka