Munaði 20 gráðum á rúmum sólarhring

Hitinn mældist 23 gráður á Fáskrúðsfirði í gær en fór …
Hitinn mældist 23 gráður á Fáskrúðsfirði í gær en fór niður i 3,7 gráður í nótt. mbl.is/Albert Kemp

Skjótt skipast veður í lofti. Það á vel við um veðráttuna á Íslandi núna sérstaklega á hálendinu, á Norðausturlandi og á Austurlandi í dag. Snjóþekja var á hálendinu og grámi í fjöllum meðal annars á Austurlandi og í Eyjafirði.  

Íbúar á Austurlandi nutu einmuna veðurblíðu í vikunni þegar hitinn fór víða vel yfir tuttugu stig en annað var upp á teningnum í morgun þegar snjóað hafði í fjöllum víða meðal annars á Fáskrúðsfirði. Hitinn í Ljósalandi á Fáskrúðsfirði fór niður í 3,7 gráður í nótt en í gær var hitinn hins vegar 23 stig, að sögn Alberts Kemp.  

Alhvít jörð blasti við gestum gistiskálans í Drekagili í morgun eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Þar var hitinn í morgunsárið 2 gráður en upp úr hádegi var hitinn kominn í 7 gráður. 

„Ég hef aldrei lent í þessu á þessum ástíma. Þetta er hressandi og bara gaman að fá snjóinn. Þegar maður er rétt klæddur er þetta ekkert mál,“ segir göngugarpurinn Einar Eyland sem lét íslenka veðráttu ekki slá sig útaf laginu.

Hann var hálendinu um helgina með góðum hópi fólks að njóta náttúrunnar og ganga á Öskju, Holuhraun, Víti og fleiri fallega staði á svæðinu. Hlýrra var í veðri á föstudegi þegar hópurinn kom en ögn kaldara var í dag.  

Í morgun lögðu þau af stað í Öskju og þar „snjóaði hressilega“. Núna er hins vegar aðeins farið að birta til, sólin er farin að glenna sig og hitinn hefur hækkað eftir því. Einar segir „snjókomu og brakandi sól" vera hið prýðilegasta veður. Hann viðurkennir þó að sveiflan í veðrinu undanfarið sé nokkuð hressileg.  

Það snjóaði í fjöll.
Það snjóaði í fjöll. mbl.is/Albert Kemp
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert