Tókust á um sykurskatt

Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG, segir skynsamlegt að stuðla að …
Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG, segir skynsamlegt að stuðla að aukinni lýðheilsu þjóðarinnar með því að beina neyslu í átt að hollari matvælum.

„Þetta er ekki séríslensk hugmynd, sérstaklega með sykurskattinn, þetta er alþjóðlegt fyrirbæri. Flest fylki Bandaríkjanna hafa til dæmis farið þá leið að setja sérstaka skatta á sykraðar drykkjarvörur,“ sagði Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Í þættinum var rætt um sykurskattinn við Ólaf Þór auk Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, formann Viðreisnar, og Ólaf Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda.

Ólafur Þór sagði það skynsamlegt að stuðla að aukinni lýðheilsu þjóðarinnar með því að beina neyslu í átt að hollari matvælum og vísaði meðal annars til tóbaksgjalds og áfengisgjalds. „Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin mælir sérstaklega með því að þessi leið sé farin í skýrslu frá 2014 þar sem bent er á þetta sem virka leið til þess að ná þessum markmiðum.“

Mismuna vöruflokkum

Þorgerður Katrín sagðist mótfallin hugmyndum um sykurskatt og að hún efaðist um árangur slíkrar skattheimtu. „Við vorum hér með sykurskatt í einhvern tíma, hann var lagður af og hvað gerðist? Sykurneysla jókst ekki – hún minnkaði.“

Benti hún á að slík skattheimta geti mismunað vöruflokkum. „Á einum stað er verið að skattleggja eitt eða tvö fyrirtæki í drykkjarbransanum alveg á fullt á meðan Mjólkursamsalan, hundrað metrum frá, er undanþegin.“

Mat Þorgerðar Katrínar er að skynsamlegra sé að sinna forvörnum með svipuðum hætti og hefur verið gert gagnvart áfengi. Sagði hún árangur af því skjalfestan.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flækir skattaumhverfið

Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda sagði ekki liggja fyrir vísindalegar rannsóknir sem sýna að sykurskattur hafi áætluð áhrif á neyslu. Benti hann á að rannsóknir sýna að skatturinn dragi úr neyslu, „en ekki nógu mikið til þess að hafa einhver raunveruleg heilsufarsáhrif.“

„Í stuttu máli er niðurstaðan í þessari greiningu að það hafi ekki tekist að sýna fram á orsakatengsla milli sykurskatts og heilsufarsútkomu,“ staðhæfði Ólafur. „Við höfum líka efasemdir um þessa tilhneigingu að stýra neyslu með sköttum sem eru lagðir á það sem menn telja óhollt eða óheppilegt.“

Sagðist hann sannfærður um að aðeins eitt skattþrep vara ætti að vera gagnvart vörum þar sem einfaldari skattkerfi skapar lægri kostnað fyrir fyrirtækin, sem um sinn getur skilað lægra verðlagi til neytenda.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda. Ljósmynd/Aðsend

Vill báðar leiðir

Ólafur Þór tók undir sjónarmið Þorgerðar Katrínar að því leiti að hann telur þörf á bættar forvarnir og að vörum sé ekki mismunað eins og í tilfelli sykraðra mjólkurvara. Hins vegar telur hann mælanlegan árangur sykurskatts um minnkun neyslu um 15-20% sé mikilvægt skref í rétta átt.

„Ég held að við verðum að fara báðar leiðirnar,“ sagði þingmaðurinn og vísaði til árangurs á sviði áfengis og tóbaks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert