Stjórnendur álversins í Straumsvík fylgjast grannt með þróun nýrrar tækni sem gæti gjörbreytt losun koldíoxíðs frá álframleiðslu. Með tækninni yrðu innleidd óbrennanleg rafskaut í kerunum en þau eru nú úr kolefni. Það binst súrefni úr súráli og þá myndast koldíoxíð.
Með óbrennanlegum rafskautum myndi framleiðslan einkum losa súrefni í stað koldíoxíðs. Slík breyting gæti haft gífurleg áhrif á kolefnisbókhald í álframleiðslu ef þessar tilraunir takast og hægt væri að innleiða þetta í álverum.
Tölvufyrirtækið Apple leiddi saman álframleiðendurna Rio Tinto og Alcoa sem voru framarlega í rannsóknum á þessu sviði. Þróunin fer fram í Kanada og styðja þarlend stjórnvöld hana.
Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto á Íslandi, segir markmiðið að tæknin verði orðin nógu þróuð til notkunar í tilraunaverksmiðju árið 2024.
Áður en slík tækni komi til álita í álverinu í Straumsvík muni fyrirtækið vinna að áætlun um að dæla niður koldíoxíði í jarðlögin umhverfis álverið. Markmiðið sé að álverið verði orðið kolefnishlutlaust 2040.
Norsk Hydro hugðist kaupa álverið í Straumsvík í fyrra. „Það er greinilega áhugi á að kaupa fyrirtækið. Viðræður komust langt en ekki varð af kaupunum. Það var óvænt að þetta gekk ekki eftir en við erum áfram hluti af Rio Tinto sem er traustur bakhjarl,“ segir Rannveig. Fjallað er um 50 ára afmæli framleiðslunnar í Morgunblaðinu í dag.