Ganga frá fjöru til fjöru

Kristinn og Kristján ætla að ganga 500 kílómetra Öræfaleið.
Kristinn og Kristján ætla að ganga 500 kílómetra Öræfaleið. Ljósmynd/Andri Geir

Félagarnir Kristinn Birkisson og Kristján Helgi Carrasco, hófu í gær langferð sínar þvert yfir landið, frá austri til vesturs. Ætla þeir að ganga yfir 500 kílómetra af óbyggðum, víðáttu og margbreytilegri náttúru, en leiðin nefnist Öræfaleið og hefur ekki verið gengin áður. 

Ljósmynd/Andri Geir

Í samtali við mbl.is segir Kristinn að hugmyndin hafi kviknað síðasta haust þegar þeir lásu um Öræfaleiðina í tímaritinu Úti. 

„Þeir voru að leitast eftir fyrstu göngumönnum til að ganga þessa leið og við urðum mjög spenntir fyrir því og ákváðum að taka okkur til og labba þessa leið í sumar,“ segir Kristinn. 

Félagarnir hafa verið duglegir að fara í gönguferðir undanfarin ár en segja Öræfaleiðina vera þá fyrstu sem sé svo löng. 

Þeir áætla að gangan taki um 30 daga og stefna á að ganga um 20 kílómetra á dag. Þeir koma til með að gista sumar nætur í tjaldi og aðrar í þeim skálum sem finna má á hálendinu á leiðinni og að allar matarsendingar verði afhendar í skálum.  

Félagarnir með kort af öræfaleið.
Félagarnir með kort af öræfaleið. Ljósmynd/Andri Geir

Leið þeirra liggur frá Lóni fyrir austan, upp Lónsöræfi í allri sinni dýrð, norður fyrir Vatnajökul og upp í Öskju. Þaðan er stefnan tekin niður í Gæsavötn, um Vonarskarð og inn í Nýjadal. Því næst er gengið Suður fyrir Hofsjökul um Þjórsárver og þaðan í Kerlingafjöll.

Næsti leggur leiðir þá yfir á Kjalveg hinn forna, í Hvítárnes. Frá Hvítárnesi er haldið upp í og norður fyrir Jarlhetturnar. Suður fyrir Langjökul, á milli Langjökuls og Þórisjökuls. Frá Þórisdal er gengið í Húsafell. Síðan er leiðin kláruð ofan í Borgarfjörðinn. Þá hafa þeir gengið frá fjöru í austri yfir í fjöru í vestri.

Öræfaleið.
Öræfaleið. Ljósmynd/Úti

Strákarnir segjast spenntir fyrir því að prufuganga Öræfaleiðina. 

„Það er fólk sem labbar part og part úr svipaðri leið og við vitum um einhverja sem hafa labbað yfir hálendið en kannski aðra leið eins og horn úr horni eða frá suðri til norðurs. Við vitum ekki til þess að nokkur annar hafi labbað þessa leið sem kölluð er öræfaleið,“ segir Kristinn. 

Hér má fylgjast með Kristinni og Kristjáni á Öræfaleið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert