Svo virðist sem utanvegahjólreiðar séu að færast nokkuð í aukana og skilja þær í mörgum tilfellum eftir sig för í náttúrunni. Í einstakri náttúru í Sveinsgili í Landmannalaugum hafa nú myndast hjólaför og er því rétt að spyrja hvort að utanvegahjólreiðar séu mikið skárri en utanvegaakstur.
Börkur Hrólfsson leiðsögumaður sagði í færslu sinni á Facebook-hópnum Ferðaþjónusta á Íslandi, að ekki væri svo afleitt að setja strangari reglur um hvar megi hjóla og hvar ekki.
Í samtali við mbl.is segir Börkur að náttúran í Sveinsgili sé afar viðkvæm og falleg og að hjólreiðaslóð sé því miður tekin að myndast þar.
„Þetta er sem sagt í Sveinsgili sem er gil inn af Jökulgili. Þetta er alveg einstakt, svona skærblár rani. Þarna hefur aldrei verið annað en bara gengið. Það er í rauninni ekkert fært þarna nema gangandi að þessu svæði. Þeir hafa þurft að leggja á sig talsverða göngu til þess að geta hjólað þarna niður,“ segir Börkur.
Börkur segist ekkert hafa á móti því að fólk hjóli um fjöll og firnindi eins og það lystir, en að hans mati ætti fólk ekki að hjóla utan slóða.
„Þetta er hópur hjólafólks sem er þarna að hjóla um fjöllin sem er að mínu mati í sjálfu sér allt í lagi svo lengi sem þeir halda sér að stígum. Þetta er ekki í neinni leið fyrir nokkurn mann þannig að þeir taka krók bara til að hjóla niður þennan klett. Þetta er mjög mjúkt og viðkvæmt berg og þeir skilja eftir sig för þegar þeir fara þarna en halda samt áfram,“ segir Börkur.
„Ég spyr bara hvort þetta sé upphafið að slóð þarna niður. Fólk leggur mikið á sig til að ganga þarna og það verður ekkert jafn gaman þegar það er komin reiðhjólaslóð þarna niður klettinn.
„Það er allt í besta lagi að hjóla um fjöllin, svo lengi sem fólk heldur sig bara á slóðum. Þetta skilur eftir sig för.“