Krabbameinsfélagið fær að skima til 2020

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdarstjóri Krabbameinsfélags Íslands, og Guðlaug Björnsdóttir, deildarstjóri hjá …
Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdarstjóri Krabbameinsfélags Íslands, og Guðlaug Björnsdóttir, deildarstjóri hjá Sjúkratryggingum Íslands, við undirritun á framlengingu leitarstarfsins. Ljósmynd/Aðsend

Óvissu um skipulag og framkvæmd skimunar fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi hefur verið slegið á frest eftir að Krabbameinsfélag Íslands féllst á beiðni heilbrigðisráðuneytisins um framlengingu leitarstarfs á Leitarstöð félagsins til ársloka 2020.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Krabbameinsfélagi Íslands.

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdarstjóri Krabbameinsfélagsins og Guðlaug Björnsdóttir, deildarstjóri hjá Sjúkratryggingum Íslands, skrifuðu undir samninginn um framlengingu leitarstarfsins á föstudag síðastliðinn.

Óvissa eftir yfirlýsingar heilbrigðisráðherra

Óvissa hefur ríkt um fyrirkomulag skimunar fyrir krabbameinum eftir að heilbrigðisráðherra lýsti því yfir í mars síðastliðnum að hún hygðist gera breytingar á skimuninni og fella hana undir opinbera þjónustu.

Krabbameinsfélagið hefur lagt áherslu á að tryggja þurfi almenningi aðgengi að skimuninni þann tíma sem tekur heilbrigðisyfirvöld að útfæra og innleiða fyrirhugaðar breytingar, segir í tilkynningunni.

„Árangursrík skimun fyrir krabbameinum byggir fyrst og fremst á sérhæfðri þekkingu fagfólks. Við lögðum til að samið yrði til lengri tíma, ekki síst til að auka starfsöryggi starfsfólksins sem hefur búið við mikið óöryggi í langan tíma vegna skammtímasamninga um þjónustuna,“ er haft eftir Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins.

Enn einn skammtímasamningurinn

Halla segir að það skipti höfuðmáli að viðhalda fagþekkingu í málaflokknum.

„Stjórnvöld höfnuðu boði okkar um lengri samning og vildu einungis semja til ársloka 2020. Þrátt fyrir það óöryggi sem það skapar, bæði í rekstri og fyrir starfsfólk, var ákveðið að fallast á enn einn skammtímasamninginn, þann áttunda frá árinu 2013, til að tryggja áframhaldandi aðgengi almennings að skimuninni.“

Tvöföldun á þátttöku á þessu ári

Undanfarin misseri hefur Krabbameinsfélagið staðið fyrir átaki til að hvetja konur til að mæta í skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum.

Hluti af því átaki er tilraunaverkefni og könnun sem félagið stendur fyrir á þessu ári þar sem boðið er upp á gjaldfrjálsa skimun fyrir konur sem eru boðaðar í krabbameinsleit í fyrsta skipti. Fjöldi kvenna á aldrinum 23 ára og 40 ára sem mættu í skimun á fyrstu fimm mánuðum ársins hefur rúmlega tvöfaldast miðað við sama tímabil í fyrra.

Stærstur hluti kvennanna segir að gjaldfrjáls skimun hafi hvatt þær til að taka þátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert