Mest fjölgun íbúa í Reykjavík

Reykjavík og nágrenni úr lofti. Mesta fjölgun meðal einstakra sveitarfélaga …
Reykjavík og nágrenni úr lofti. Mesta fjölgun meðal einstakra sveitarfélaga var í Reykjavík. mbl.is/Golli

Íbúum hefur fjölgað í öllum landshlutum frá 1. desember síðastliðnum nema á Vestfjörðum. Af einstaka sveitarfélögum var fjölgunin mest í Reykjavík en hlutfallslega mest í Skagabyggð. Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár Íslands.

Íbúum Reykjavíkur fjölgaði um 1.161 á tímabilinu 1. desember til dagsins í dag. Það er hlutfallsleg fjölgun upp á 0,9%. Í Kópavogi fjölgaði næstmest, um 473 íbúa, eða 1,3% og því næst kom Mosfellsbær þar sem hlutfallsleg fjölgun var 3,3% sem samsvarar 377 nýjum íbúum.

Hlutfallslega mest fjölgun var í Skagabyggð og nam hún 10,2%. Íbúafjöldi þar fór úr 88 íbúum í 97 íbúa.

Hlutfallslega mest fjölgun á Suðurlandi

Íbúum fækkaði í 20 af 72 sveitarfélögum á tímabilinu, mest fækkaði hlutfallslega í Eyja- og Miklaholtshreppi og nam hún 6,8%. Í Árneshreppi fækkaði íbúum um 5,0%.

Í þeim 39 sveitarfélögum með íbúafjölda undir eitt þúsund þá fækkaði íbúum í 16 þeirra.

Þegar landshlutar eru skoðaðir saman þá sést að lítilsháttar fjölgun hefur átt sér stað í öllum landshlutum nema á Vestfjörðum þar sem fækkaði um 9 íbúa.

Hlutfallslega mest fjölgun var á Suðurlandi og nam hún 600 íbúum eða 2,0% fjölgun. Næst mest fjölgaði íbúum á höfuðborgarsvæðinu og því næst á Suðurnesjum.

Íbúum í Árneshreppi fækkaði um 5,0% á tímabilinu 1. desember …
Íbúum í Árneshreppi fækkaði um 5,0% á tímabilinu 1. desember 2018 til 1. júlí 2019. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert