Mynda umferð á þjóðvegi 1

Fylgst með bílaumferðinni á mótum Seltjarnarnes og Nesvegar.
Fylgst með bílaumferðinni á mótum Seltjarnarnes og Nesvegar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftirlitsmyndavélum hefur verið komið upp við bæjarmörk á Hellu og Hvolsvelli, áþekkum þeim sem finna má á Seltjarnarnesi, í Kópavogi og í Garðabæ. Þá eru myndavélar við bæjarmörk Selfoss.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir vélarnar nýtast með margvíslegum hætti. „Við höfum notað myndir úr þessu við rannsóknir hjá okkur. Bæði í innbrotamálum og þegar við erum að leita að fólki sem hefur horfið. Þetta getur satt að segja nýst í mjög mörgum tegundum mála, til dæmis fíkniefnamálum,“ segir hann, en lögreglan hefur ein aðgang að efni úr myndavélunum sem er aðgengilegt í takmarkaðan tíma. Þá er eftirlitið ekki viðvarandi, heldur grípur lögregla aðeins til þess þegar sérstök þörf krefur. „Myndavélarnar taka myndir af bílnúmerum og við getum síðan flett bílnúmerum upp í kerfinu hjá okkur,“ segir Sveinn Kristján.

Gríðarmikil umferð er um þjóðveg eitt gegnum Hellu og Hvolsvöll. Aðspurður segir Sveinn Kristján að myndavélaeftirlit á þessum stöðum sé þó ekki eðlisólíkt því sem fram fari á höfuðborgarsvæðinu. „Það er auðvitað gríðarlegt magn af myndum sem safnast upp hjá okkur, en þetta er ósköp svipað og á höfuðborgarsvæðinu,“ segir hann og tekur fram, að ekki sé um hraðamyndavélar að ræða. jbe@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert