Öldrunarheimili Akureyrar (ÖA) hafa undirritað samning við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) um rekstur öldrunarþjónustu.
Heilbrigðisráðherra staðfesti samninginn við undirritun hans á Akureyri sl laugardag. Með samningnum er skapað svigrúm fyrir aukinn sveigjanleika þjónustunnar til að mæta betur þörfum notenda. Þess er vænst að samningurinn verði fyrirmynd að gerð sambærilegra samninga milli SÍ og annarra rekstraraðila hjúkrunarheimila um allt land.
Frá þessu er greint á vef Sjúkratrygginga Íslands.
Fram kemur, að um síðustu áramót hafi runnið út rammasamningur Sjúkratrygginga Íslands um rekstur dvalar- og hjúkrunarheimila sem gilt hafði frá 1. janúar 2016. Framkvæmdin fólst í því að rekstraraðilar dvalar- og hjúkrunarheimila sögðu sig inn á samninginn og skuldbundu sig þar með til að starfa á grundvelli hans og fá greitt á þeim grunni.
Með samningi SÍ og ÖA er brotið í blað þar sem gerður er sérstakur samningur á milli aðila í stað eins samnings fyrir alla rekstraraðila líkt og áður. Eins og fram kemur í samningnum er meginmarkmiðið að skapa svigrúm til sveigjanleika í öldrunarþjónustu sem gefur meðal annars kost á tímabundnum úrræðum og breytilegum þjónustutíma eftir þörfum.
ldrunarheimili Akureyrar óskuðu eftir og fengu á liðnu ári heimild heilbrigðisráðherra til að ráðast í nýsköpunar- og þróunarverkefni í öldrunarþjónustu sem í stuttu máli byggist á sveigjanlegri dagþjónustu í stað hvíldarinnlagna. Verkefnið hófst í byrjun þessa árs og hefur gefið góða raun, að því er fram kemur í tilkynningunni.