Vörubifreið ók á brú á Vesturlandsvegi

Umferðartafir eru nú á Vesturlandsvegi í vesturátt á meðan unnið …
Umferðartafir eru nú á Vesturlandsvegi í vesturátt á meðan unnið er á vettvangi. Myndin er úr safni og sýnir umferðarteppu á Vesturlandsvegi í austurátt. mbl.is/Styrmir Kári.

Vörubifreið með krana ók upp undir brú á Vesturlandsvegi skammt frá Stórhöfða á fimmta tímanum í dag. Ökumaður bifreiðarinnar fær nú aðhlynningu sjúkraflutningamanna en er ekki talinn alvarlega slasaður á þessari stundu, segir talsmaður Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins í samtali við mbl.is.

Ekki er vitað ástand bifreiðarinnar en ljóst að kraninn hefur skaddast eitthvað við áreksturinn.

Olía lak úr bifreiðinni eftir áreksturinn og vinnur slökkviliðið að því að hreinsa svæðið. Nokkrar umferðatafir eru nú á Vesturlandsvegi en unnið er að því að fjarlægja vörubifreiðina af veginum svo hægt sé að opna að fullu fyrir umferð á nýjan leik.

Vatnsleki í Laugardalshöll

Slökkviliðinu barst önnur tilkynning um sama leyti og var það vegna vatnsleka í Laugardalshöll. Samkvæmt fyrstu upplýsingum átti um 1.500 fermetra svæði að vera á floti en það reyndist eitthvað minna þegar uppi var staðið.

Um var að ræða kalt vatn og því lítil hætta á ferðum. Tjón er talið vera minniháttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert