Gerðar voru 649 ófrjósemisaðgerðir hér á landi í fyrra og er það svipaður fjöldi og undanfarin ár. 1.049 þungunarrof voru framkvæmd hér í fyrra og hafa aldrei verið fleiri.
Það samsvarar 12,8 fóstureyðingum á hverjar 1.000 konur á frjósemisaldri (15-49 ára). Þrátt fyrir að þungunarrofum hafi fjölgað lítillega síðustu tvo áratugi hefur tíðni þeirra lítið breyst. Að meðaltali hafa verið gerð 12,6 þungunarrof hjá hverjum 1.000 konum á frjósemisaldri á ári. Það er nálægt norrænu meðaltali.
Tölur um þungunarrof 2018 voru nýlega gefnar út á vef Embættis landlæknis og um leið voru eldri tölur endurskoðaðar og endurútgefnar. Samkvæmt töflu í Talnabrunni sem birtur var í gær voru gerðar samtals 19.962 fóstureyðingar hér á árunum 1998-2018.