Biðst afsökunar á hjólreiðum utan slóðar

Sjá má Grænahrygg fyrir miðju myndarinnar.
Sjá má Grænahrygg fyrir miðju myndarinnar. mbl.is/RAX

Aðilarnir sem hjóluðu utan slóðar á Grænahryggi í Sveinsgili á friðlandi að Fjallabaki hafa beðist afsökunar á atferlinu. Segja þeir að um hugsunarleysi hafi verið að ræða sem muni ekki endurtaka sig, en hjólin skildu eftir sig för á Grænahryggi. 

Haukur Parelius var á meðal þeirra sem voru í ferðinni og segir hann að ekki hafi verið um skipulagða hjólaferð að ræða, en Haukur rekur sjálfur fyrirtæki í ferðaþjónustu og búið var að bendla það við málið í athugasemdum á Facebook.

Haukur sagði að um ferð hjá íslenskum vinahópi hafi verið að ræða þar sem hjólað var í Jökulgili og inn að Grænahrygg. 

Í svari við fyrirspurn mbl.is segir Haukur að einn hjólreiðamannanna hafi ákveðið að hjóla niður hrygginn fyrir mynd.

„Það var ekki gert af illvilja eða skemmdarfýsn heldur í þeirri trú að þessi tegund hjóla skilja eftir sig grynnri för en flest fótspor og þetta gerist í andartaks hugsunarleysi.

„Ég tek fulla ábyrgð og biðst að sjálfsögðu innilega afsökunar á mistökum mínum. Þau munu ekki endurtaka sig,“ segir Haukur í svari sínu. 

Landverðir að Fjallabaki munu í kvöld kanna umfang skemmda og hvað sé hægt að gera til að laga slóðirnar. 

Þá er málið einnig til skoðunar hjá Umhverfisstofnun, en sérstakar reglur gilda um náttúruspjöll innan friðlands. 

Sjá má hér hjólaförin á Grænahrygg.
Sjá má hér hjólaförin á Grænahrygg. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka