Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur telur ekki heppilegt að leyfa aðstöðu fyrir pylsuvagn framan við Sundhöll Reykjavíkur, eins og gjarnan tíðkast við sundstaði hér á landi.
Lagt var fyrir ráðið minnisblað frá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar á fundi þess 24. júní, en þar var tekin fyrir umsókn rekstraraðila til úthlutunarnefndar götu- og torgsölu um aðstöðu fyrir pylsuvagn við Sundhöllina.
Nefndin vísaði umsókninni til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, sem komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri „heppilegt að hafa p[y]lsuvagn við Sundhöllina“. Í minnisblaði frá úthlutunarnefnd götu- og torgsölu kemur fram að ekki sé aðgangur að rafmagni þar sem óskað var eftir aðstöðu við Sundhöllina.
Í bókun sinni bendir menningar-, íþrótta- og tómstundaráð á að í nágrenninu séu allmörg kaffihús, veitingastaðir og skyndibitastaðir.