Fá svefnlyf en lifa áfram í óvissu

Fjölskyldufaðirinn gengur með sonum sínum um háskólalóðina í dag. Þeir …
Fjölskyldufaðirinn gengur með sonum sínum um háskólalóðina í dag. Þeir voru að koma í háskólahverfið í fyrsta sinn í dag til fundar við blaðamann. Mahdi, 10 ára, er vinstra megin á myndinni og Ali, 9 ára, til hægri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mahdi Sarwary, afganskur drengur á flótta, fór á BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítalans, í morgun vegna ofsakvíða sem blossað hafði upp hjá honum þegar faðir hans færði honum þær fréttir í fyrrakvöld að til stæði að senda þá úr landi. 

Mahdi segir við blaðamann mbl.is að hann hafi farið til læknisins vegna þess að honum var svo illt í maganum. Hann á annan tíma í eins konar róandi meðferð á morgun og þar verður leitað leiða til þess að róa taugar drengsins. Tungumálið hrekkur skammt, þrátt fyrir dygga hjálp túlks og það að þegar eru drengirnir farnir að tjá sig á íslensku. Í millitíðinni fær Mahdi svefntöflur, í von um að gera honum kleift að sofa á næturnar.

Og feðgarnir þrír ætla að reyna að taka því rólega í dag, því samkvæmt tilmælum lækna á sjúkrahúsinu var það talið æskilegt í stöðunni. Þeir búa þrír á Tangabryggju í Grafarvogi en eiga von á því brátt að vera sendir úr landi, aftur til Grikklands, þar sem ógn vofir yfir og faðirinn Asamullah óttast um öryggi sitt og sérstaklega drengjanna sinna tveggja.

„Ég fékk lyf sem munu hjálpa mér að sofa,“ segir Mahdi um læknisheimsóknina.

Heldurðu að þér muni líða betur vegna þeirra?

„Ég veit það ekki.“

Feðgarnir ræddu við blaðamann mbl.is ýmist á íslensku eða með aðstoð túlks sem sat fund þeirra og miðlaði málum.

Ísland er heima fyrir þeim

„Við höfum verið hér í 11 mánuði en núna á að senda okkur aftur úr landi. Það er mjög erfitt, sérstaklega fyrir börnin mín. Mahdi líður mjög illa og hann er að byrja í meðferð á sjúkrahúsinu við vanlíðaninni,“ segir Asadullah. 

Bræðurnir kunna vel við sig á Íslandi og þeir óttast …
Bræðurnir kunna vel við sig á Íslandi og þeir óttast mjög að komast ekki í skóla þegar til Grikklands verður komið. Faðir þeirra telur þá þar að auki í hættu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann segir fullkomna óvissu ríkja um það hvort þeim verði leyft að vera áfram á landinu í ljósi þessara breyttu aðstæðna. Þeir lifa dag fyrir dag í þeirri óvissu.

Drengirnir hans vilja vera áfram á Íslandi. „Ég kom til Íslands af því að ég var að hugsa um framtíð barnanna minna,“ segir Asadullah og lýsir því að betra hefði verið að fá að vita það með vissu eftir 2 mánuði eða 4 mánuði hvort þeir fengju að vera um kyrrt eða ekki. 

„Það hefði ekki verið eins erfitt fyrir þá að fara úr landi eftir þann tíma að fara en nú eru þeir komin með sterk tengsl við landið. Þeir eru byrjaðir að tala tungumálið, þeir eru í kringum vini sína, þeir eru í skólanum og þeir hafa tilfinningu fyrir þessu landi núna. Ísland er heima fyrir þeim,“ segir hann.

„Mahdi segir í sífellu við mig: Ég vil ekki fara úr skólanum aftur,“ segir faðirinn. Hann er mjög hræddur um öryggi barna sinna ef þeir verða sendir úr landi. 

„Við eigum vini hérna“

Mahdi líður vel á Íslandi og bróður hans Ali líka. „Við eigum vini hérna og við erum í skóla hérna,“ segja bræðurnir. Hér eiga þeir vini, þeir eru farnir að tala íslensku og þeir eru búnir að koma sér fyrir í skólanum, búnir að festa rætur, eins og faðir þeirra lýsir.

Mahdi vill ekki fara til Grikklands: „Það er ekki skóli fyrir okkur í Grikklandi,“ segir hann. Hann svarar spurningum blaðamanns á góðri íslensku.

Það er auðheyrt á drengjunum að þeim þykir vænt um skólann sinn en utan hans finnst þeim einstaklega gaman að fara í sund. Þeir eru einróma um ánægju með íslenskar sundlaugar.

Feðgarnir búa í Grafarvoginum og drengirnir hafa sérstakt orð á …
Feðgarnir búa í Grafarvoginum og drengirnir hafa sérstakt orð á því á kjarngóðri íslensku hve gaman þeim þykir að fara í sund. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þegar lögreglan kom í lok júní og tilkynnti feðgunum um að brottvísunin myndi eiga sér stað byrjaði Mahdi að líða mjög illa. Hann vissi hvað var í vændum og geðshræring hans varð það slæm að leitast var við að fá tíma á geðdeild fyrir hann, sem svo fékkst. Þar verður hann áfram í meðferð næstu daga og fer þangað í heimsókn aftur á morgun. Ákveðið var að leggja hann ekki inn heldur frekar leyfa honum að vera með fjölskyldu sinni í dag.

Vonast eftir endurupptöku

Nú er að bíða og vona að endurupptökubeiðnin, sem Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður feðganna, hefur sent til kærunefndar útlendingamála, verði samþykkt. Sú endurupptökubeiðni tekur mið af „þeim breyttu aðstæðum sem upp eru komnar í málinu og varða eldri drengurinn og andleg veikindi hans,“ segir Magnús við mbl.is og vísar þar til áfallsins sem Mahdi varð fyrir þegar honum voru færðar fréttirnar.

Búið var að ákveða dagsetningu brottvísunar feðganna en stoðdeild lögreglu hætti við að framkvæma brottvísunina vegna þessara andlegu veikinda sem upp komu. Nú er vonast til þess að kærunefndin taki mið af þeim líka.

„Það er afskaplega sorglegt að íslensk stjórnvöld skuli standa í því að brottvísa börnum sem eru í þessari stöðu. Það er vonandi að það verði einhver breyting á þessum málum,“ segir Magnús, sem er þó engu nær um hvernig fer.

Ekki öruggt að fara aftur til Grikklands

„Ég flutti frá Grikklandi eftir að ég og konan mín skildum. Það er ekki vel séð í menningu okkar og bróðir hennar var til dæmis mjög reiður. Það var ekki öruggt fyrir mig eða börnin mín að vera þarna áfram þannig að ég fór hingað til Íslands af því að ég hafði heyrt að hér væri öruggt að búa,“ segir Asadullah, sem er síja-múslimi frá Afganistan. Áður bjó hann í tjaldi í Grikklandi með konu sinni og börnum. Konan býr áfram í Grikklandi.

Asadullah var smiður í Afganistan, flúði svo til Grikklands en …
Asadullah var smiður í Afganistan, flúði svo til Grikklands en flutti þaðan vegna hótana og hættu sem stafaði af fyrrverandi tengdafjölskyldu hans þar. Hann vill vernda drengina sína. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann er mjög hræddur við að fara aftur til Grikklands, þar sem hann á í hættu á að verða fyrir árás af hendi fyrrverandi mágs síns. Hann ber þó fyrst og fremst hagsmuni sona sinna fyrir brjósti og afber ekki að sjá þá tekna úr þeim ágætu aðstæðum sem þeir eru loks komnir í hér á landi. 

Asadullah hefur verið á flótta um árabil og var eins og segir í Grikklandi áður en hann kom til Íslands. Hann hefur fengið neitun við umsóknum sínum um vernd hér á landi tvisvar og ekki hefur verið talin ástæða til þess að gefa honum og sonum hans varanlegt landvistarleyfi. Hann hefur heldur ekki atvinnuleyfi hér á landi en í heimalandi sínu var hann smiður. Hann þráir að fá að búa hér á landi, vinna og leyfa sonum sínum að ganga í skóla áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert