Ástæðan fyrir því að breyta á fyrirkomulagi skimunar fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum er sú að skimunarráð, sem sett var á laggirnar í samræmi við lög, og Embætti landlæknis sendu tillögur um hvernig best er að haga fyrirkomulagi skimana til heilbrigðisráðuneytisins sem samþykktar voru af ráðherra. Þetta segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is.
Greint var frá því í gær að óvissu um skipulag og framkvæmd skimana hefði verið slegið á frest eftir að Krabbameinsfélag Íslands féllst á beiðni heilbrigðisráðuneytisins um að framlengja samning um leitarstarf á Leitarstöð félagsins til ársloka 2020.
Í tillkynningu frá Krabbameinsfélaginu kom fram að óvissa hefði ríkt um skipulag og framkvæmd skimana fyrir krabbameinum og að tryggja þurfi almenningi aðgengi að skimuninni þann tíma sem tekur heilbrigðisyfirvöld að útfæra og innleiða fyrirhugaðar breytingar. Hvorki megi verða rof á þjónustu né að árangur dali.
„Árangursrík skimun fyrir krabbameinum byggir fyrst og fremst á sérhæfðri þekkingu fagfólks. Við lögðum til að samið yrði til lengri tíma, ekki síst til að auka starfsöryggi starfsfólksins sem hefur búið við mikið óöryggi í langan tíma vegna skammtímasamninga um þjónustuna,“ var haft eftir Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsins í tilkynningunni frá því í gær. Tillögu Krabbameinsfélagsins um að semja til þriggja ára var hafnað af stjórnvöldum.
Þegar breytt skipulag skimana var kynnt af heilbrigðisráðuneytinu í mars kom fram í fréttatilkynningu að ástæðan væri meðal annars sú að verið væri að færa skipulag skimana nær því skipulagi sem mælt sé með í leiðbeiningum Evrópusambandsins um skimanir.
„Tillagan sem skimunarráð leggur til er algjörlega í samræmi við það sem gerist í Evrópu og á Norðurlöndunum. Þetta snýst um það að krabbameinsskimanir verði í fyllingu tímans að mestu leyti hjá opinberum aðilum og það verði samfella í þjónustunni. Við höfum haft áhyggjur af því því að komum sé að fækka í þessari þjónustu og það er gríðarlega mikilvægt að þetta sé eins og best verður á kosið,“ segir Svandís í samtali við mbl.is og bætir við:
„Við gerum okkur grein fyrir því að þessar breytingar verða ekki gerðar á einni nóttu og þess vegna var Sjúkratryggingum falið að gera þennan skammtímasamning við Krabbameinsfélagið til að tryggja samfellu í þjónustunni.“
En hefur heilbrigðisráðherra áhyggjur af því að sérþekking og sérhæfing sem starfsmenn Krabbameinsfélags Íslands búa yfir glatist með breyttu fyrirkomulagi?
„Um það var fjallað í skýrslu skimunarráðs og ráðið horfir til allra þessa þátta. Ég samþykki þær tillögur sem til mín koma í ljósi þess að þær eru byggðar á fagþekkingu þeirra þeirra sem skimunarráð skipar, sem eru þeir sem best þekkja til á þessu sviði,“ segir Svandís og bætir við að lokum:
„Landspítalinn, Háskóli Íslands, heilsugæslan og fleiri aðilar búa allir yfir vísindalegri þekkingu og þekkingu á því hvernig þessum málum er fyrirkomið í löndunum í kring um okkur.“