„Hellað“ verkefni á Grænlandsjökli

Frá aðgerðunum á Grænlandsjökli.
Frá aðgerðunum á Grænlandsjökli. Ljósmynd/Arnar Ingi

Þrír íslenskir leiðsögu- og björgunarsveitarmenn hafa, ásamt hópi vísindamanna, nýlokið stóru verkefni á Grænlandsjökli þar sem þeir endurheimtu vélarhluta úr breiðþotu franska flugfélagsins Air France, sem varð vélarvana yfir Grænlandi á leið sinni frá París til Los Angeles í október 2017.

Einn af fjór­um hreyfl­um vél­ar­inn­ar, sem er af gerðinni A380, gaf sig. Leiðangur Íslendinganna þriggja, Arnars Inga Gunnarssonar, Tómasar Eldjárns Vilhjálmssonar og Antons Aðalsteinssonar, gekk út á það að ná vélarhlutanum þannig að franska flugslysarannsóknarnefndin (BEA) geti kannað hvað olli því að hreyfillinn gaf sig.

Þrautreyndar fjallageitur

„Ég fékk þetta verkefni af því að ég hef verið að vinna sem leiðsögumaður á jöklum og er í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík,“ segir Arnar við mbl.is þar sem hann er staddur á Grænlandi. Hann segir að Tómas og Anton séu báðir þrautreyndir á fjöllum og auk þess góðir í tæknilegri vinnu. 

Íslendingarnar fundu hreyfilinn.
Íslendingarnar fundu hreyfilinn. Ljósmynd/Arnar Ingi

Arnar útskýrir að þegar félagarnir hafi komið til Grænlands hafi þeir nýtt tækifærið um leið og veður leyfði til að fara á Grænlandsjökul, á svæði þar sem talið var að vélarhlutinn væri, norðvestan við bæinn Narsarsuaq.

„Við settum upp vinnubúðir og hófumst handa við að grafa þetta upp. Svo loksins komum við niður á þetta á sirka þriggja og hálfs metra dýpi,“ segir Arnar.

Gríðarlega umfangsmikið verkefni

Hann bætir við að hópur vísindamanna hafi undanfarið eitt og hálft ár rannsakað hvar vélarhlutinn gæti verið niðurkominn og verkefnið, sem þeir luku, hafi verið stórt í sniðum.

„Það voru til að mynda send vélmenni á jökulinn og fjórir leiðangrar hafa skannað eftir hreyflinum til að finna hann,“ segir Arnar en BEA þurfti eins og áður segir að fá hann til að rannsaka málið.

Breiðþota Air France-flugfélagsins varð vélarvana á leið sinni frá París …
Breiðþota Air France-flugfélagsins varð vélarvana á leið sinni frá París til Los Angeles en einn af fjórum hreyflum vélarinnar gaf sig. Ljósmynd/Arnar Ingi

Sérstakt að taka þátt í þessu

„Okkur tókst að koma honum á brott, af jöklinum,“ segir Arnar. BEA er nú með vélarhlutann í sinni umsjá og mun senda teymi til Grænlands þaðan sem flogið verður með hann vestur til Bandaríkjanna.

Arnar segir að það sé ekki hægt að neita því að um nokkuð óhefðbundið verkefni hafi verið að ræða fyrir hann. Hann, Tómas og Anton eru björgunar- og leiðsögumenn en flestir aðrir sem komu að verkefninu eru jarðvísindamenn.

„Það er sérstakt að lenda í svona risaverkefni. Þetta var „hellað“,“ segir Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert