Íslenskir karlmenn 94% vændiskaupenda

„Þetta árið hefur embættið haft meiri mannafla og tíma til …
„Þetta árið hefur embættið haft meiri mannafla og tíma til að takast á við málaflokkinn og tölurnar endurspegla það,“ segir í tilkynningu lögreglu. mbl.is/Eggert

Alls hafa 48 vændiskaupabrot verið skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári, samanborið við einungis níu skráð tilvik allt árið í fyrra. 38 brotanna voru skráð í maí og júní, samkvæmt tilkynningu frá lögreglu.

Lögregla segir að þessa miklu fjölgun megi rekja til aukins krafts sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sett í rannsóknir á málum sem snúa að skipulagðri brotastarfsemi, en mansal og vændi eru ein birtingarmynd þess konar háttsemi.

„Þetta árið hefur embættið haft meiri mannafla og tíma til að takast á við málaflokkinn og tölurnar endurspegla það,“ segir í tilkynningu lögreglu.

94% þeirra sem staðnir hafa verið að verki við vændiskaup á árinu eru íslenskir karlmenn, en meðalaldur þeirra er 41 ár. Hin sex prósentin voru erlendir karlmenn og segir í tilkynningu lögreglu að þetta hlutfall kunni að „koma einhverjum á óvart“.

„Þeir sem stunda vændi hérlendis eru mestmegnis erlendar konur, en sumar þeirra virðast koma hingað ítrekað þessara erinda. Mansalsmál eru sömuleiðis til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en þau eru þung í vöfum og taka langan tíma. Hér, líkt og á Norðurlöndunum, eru fá mál sem fara alla leið í kerfinu, en það kann að breytast þegar fram líða stundir,“ segir í tilkynningu lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert