Jarðgöng eða lágbrú koma til greina

Svona gæti Sundabraut legið, yfir Álfsnes, Gunnunes, Geldinganes, Gufunes og …
Svona gæti Sundabraut legið, yfir Álfsnes, Gunnunes, Geldinganes, Gufunes og áfram til Reykjavíkur. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Jarðgöng yfir í Gufunes og lágbrú sem þverar hafnarsvæðið við Kleppsvík eru þeir valkostir sem starfshópur á vegum ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu telur koma til greina fyrir nýja Sundabraut.

Starfshópurinn hefur skilað skýrslu til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, en hvorki botngöng né hábrú yfir Kleppsvík voru taldir fýsilegir kostir. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Starfshópurinn fór yfir öll fyrirliggjandi gögn um framkvæmdina og lét uppfæra kostnaðaráætlanir og umferðarspár. Erfiðasti og dýrasti hluti mögulegrar Sundabrautar er þverun Kleppsvíkur, en þar er nú umfangsmikil starfsemi Sundahafnar, sem er megingátt Íslands í vöruflutningum á sjó.

Starfshópurinn telur jarðgögn eina raunhæfa möguleikann fyrir útfærslu Sundabrautar miðað við gildandi skipulag, stefnu stjórnvalda og framtíðaráform Faxaflóahafna og skipafélaganna um hafnarsvæðið. Þau hafi lítil sem engin áhrif á starfsemi og möguleika á framtíðarþróun Sundahafnar. Samkvæmt kostnaðarútreikningum yrðu jarðgöngin þó umtalsvert dýrari en aðrar lausnir og myndu, að mati starfshópsins, laða að sér minni umferð. 

Á móti komi hins vegar að umferðarspár bendi til að með tilkomu þeirra gæti dregið úr umferð á vestari hluta Sæbrautar sem getur til lengri tíma leitt af sér minni fjárfestingarþörf þar og bætt umhverfisgæði.

Af valkostum um að þvera Kleppsvík telur starfshópurinn aðeins koma til greina að lágbrú verði fyrir valinu. Sú leið væri ódýrasta lausnin og sennilega sú besta fyrir aðra samgöngumáta. Lágbrú myndi laða að sér mesta umferð og bæta aðgengi annarra ferðamáta verulega.

Á hinn bóginn myndi framkvæmdin kalla á að framtíðarhugmyndir um skipulag hafnarstarfsemi við Sundahöfn yrðu teknar til gagngerrar endurskoðunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert