Verða send úr landi í næstu viku

Fulltrúar réttindaráðs Hagaskóla. Zainab Safari er önnur til vinstri á …
Fulltrúar réttindaráðs Hagaskóla. Zainab Safari er önnur til vinstri á myndinni. mbl.is/Árni Sæberg

Fyrir liggur að Shahnaz Safari og börn­um henn­ar tveim­ur, Zainab og Amil, verður að öllu óbreyttu vísað úr landi í næstu viku. Kennari í Hagaskóla segir systkinin vera óttafull yfir óvissunni sem fram undan sé og biðlar til stjórnvalda að setja hagsmuni barna í forgang. 

Ómar Örn Magnússon, kennari í Hagaskóla, sagði í samtali við mbl.is að allar leiðir til að fá því framgengt að fjölskyldan fái efnislega meðferð hafi verið fullreyndar og að öll sund virðist lokuð. 

„Þetta er náttúrulega búið að vera mál frá því að þau komu til landsins síðasta haust. Þá fer af stað þetta ferli, það er sótt um að mál þeirra verði tekið til efnislegrar meðferðar og þau óska eftir að fá að vera á Íslandi,“ segir Ómar. 

„Undanfarið hafa svona mál unnist eins hjá stjórnvöldum og oftast er efnislegri meðferð hafnað. Þau hafa fengið sínar hafnanir og fengu þá síðustu fyrir páska þar sem bæði var hafnað að málið yrði tekið til efnislegrar meðferðar og jafnframt var því hafnað að réttaráhrif myndu frestast, það er að segja að þau fengju að vera á landinu á meðan málið væri til meðferðar. 

„Síðan þá hefur alveg verið ljóst að þeim verði vísað úr landi og að sú brottvísun yrði framkvæmd áður en þau yrðu búin að vera í eitt ár á landinu því þá yrðu þau sjálfkrafa komin með rétt til efnislegrar meðferðar,“ segir Ómar, en auk Safari-fjölskyldunnar stendur einnig til að vísa afgönskum feðgum sem sóttu hér um vernd, aftur til Grikklands. 

Verða send úr landi í næstu viku

Ómar segir að eins og við var búist hafi fjölskyldunni nú verið tilkynnt að henni verði vísað úr landi í næstu viku.

„Þau fengu svo þær upplýsingar frá lögreglunni í þar síðustu viku að lögreglan væri komin með það verkefni að fylgja þeim úr landi og að það yrði líklega gert í næstu viku. Við gerum ráð fyrir því að þau fái upplýsingar um dagsetningu fyrir helgina.“

Systkinin hafa bæði verið í íslenskum skóla síðan síðasta haust og hafa eignast hér vini, aðlagast samfélaginu og farið að finna fyrir bjartsýni fyrir framtíðinni, líklegast í fyrsta sinn í langan tíma. Fjölskyldan flúði frá Afganistan til Grikklands þar sem hún var í flóttamannabúðum í tvö ár. Ómar segir systkinin vera kvíðin fyrir því að fara aftur þangað, enda ekki upplifað þar neitt nema óvissu. 

Barátta samnemenda Zainab í Hagaskóla fyrir skólasystur sína hefur vakið mikla athygli og héldu þeir meðal annars mótmælagöngu og stóðu að undirskriftasöfnun. Þá gaf réttindaráð Hagaskóla í dag út áskorun þar sem skorað er á ýmsa aðila í samfélaginu að mótmæla brottvísun fjölskyldunnar. 

„Það eru margir sem standa að fjölskyldunni sem vilja að þau fái bara réttláta meðferð hérna á Íslandi. UNICEF á Íslandi vakti til dæmis athygli á því í gær að Grikkland væri ekki öruggt land fyrir börn á flótta og svo höfum við vakið athygli á því allan tímann að samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem Ísland hefur leitt í lög, þá á að taka allar ákvarðanir sem varða börn, með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Við teljum að það sé alveg klárlega ekki gert í þessu máli,“ segir Ómar.

Ekkert bíður nema óvissa

Ómar segir ólíklegt að systkinin fái aðgang að menntun í Grikklandi og að þar bíði þeirra ekki annað en vera í flóttamannabúðum og óvissa. Það séu aðstæður sem engin börn eigi að búa við. 

„Þau munu klárlega ekki hafa aðgang að skóla eða nokkru öðru. Þau eru mjög meðvituð um það, enda voru þau þarna í tvö ár og upplifðu mikið óöryggi. Ekki bara það að upplifa að það sé ekkert kerfi sem gæti stutt þau eins og er hérna á Íslandi heldur líka óöryggi í sínu umhverfi. Það eru erfiðar aðstæður á meðal flóttamanna í Grikklandi sem eru mjög ógnandi og þau upplifðu það of vel.“

Ómar segist halda að lítið sem ekkert sé hægt að gera í máli fjölskyldunnar úr þessu og segir það ákaflega sorglegt að hagsmunum barna sé ekki gert hærra undir höfði í málum sem þessum. Það sé ekki undir neinum kringumstæðum barni fyrir bestu að vera sent í flóttamannabúðir þar sem aðgangur að allri nauðsynlegri þjónustu sé lítill sem enginn. 

„Það er búið að reyna, teljum við, allar mögulegar opinberar leiðir. Ákvörðunin stendur og það er líklega ekkert annað í spilunum en að fjölskyldan verði send í burtu. Á meðan þau eru hérna munum við áfram vekja athygli á þessu og okkur ber að gera það sem fullorðið fólk. Okkur ber að vekja athygli á því ef við teljum að börn búi ekki við góðar aðstæður eða séu í sjálfsskaðandi ástandi vegna kvíða og ótta.“

Þá segist Ómar ekki hafa heyrt frá neinum sem finnist sú málsmeðferð, sem Safari-fjölskyldan fékk, ásættanleg.

„Ég hef ekki heyrt neinn stjórnmálamann segjast vilja að þetta sé svona og að þetta eigi að vera stefnan. Þess vegna myndi ég skora á stjórnmálamenn að koma fram með það hvort að þetta sé fyrirkomulag sem sé þeim þóknanlegt eða ekki. 

„Við getum alveg haft ákveðna stefnu í svona málum en við verðum alltaf að líta aðeins við þegar börn eiga í hlut.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert