„Við erum í kapphlaupi við tímann“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Með því að leggja stóraukna áherslu á kolefnisbindingu getum við um leið dregið verulega úr losun hér á landi og þarna getur Ísland markað sér ákveðna sérstöðu. Við erum ekki aðeins með það að markmiði að uppfylla Parísarsamkomulagið og ákvæði þess heldur líka að Ísland verði kolefnishlutlaust eigi síðar en 2040,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á blaðamannafundi í dag þegar kynntar voru aðgerðir til að auka kolefnisbindingu og efla lífríki. 

„Við erum í kapphlaupi við tímann og það skiptir máli að byrja aðgerðir sem við teljum að skili árangri en líka að undirbúa næstu skref,“ segir Katrín og bendir á að Ísland sé í fararbroddi ásamt öðrum ríkjum sem setja sér það markmið að verða kolefnishlutlaus árið 2040. 2,1 milljarði króna verður varið í þessar aðgerðir næstu 4 árin. Þetta er annar af tveimur meginþáttum áætlunar ríkisstjórnarinnar í aðgerðum í loftslagsmálum. 

Hún bendir á að þetta sé í fyrsta sinn sem fjármagn er eyrnamerkt til rannsókna sem tengjast loftslagsbreytingum, til samfélagslegra áskoranna. 

„Það sem við höfum verið að skoða hér á Íslandi bendir til þess að við getum dregið verulega úr magni kolefnis í loftinu með bindingu. Það er ástæðan fyrir því að við leggjum áherslu á rannsóknirnar meðfram þessu, að við getum sýnt fram á raunverulegan árangur,“ segir Katrín.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mbl.is/Kristinn Magnússon

Þær aðgerðir sem meðal annars verður farið í er að umfang landgræðslu og skógræktar verður tvöfaldað, endurheimt votlendis aukin til muna. Lögð verður áhersla á vernd lífríkis og endurheimt vistkerfa ásamt mælanlegum loftslagsávinningi. Verkefnin eru fjölbreytt um allt land í samvinnu ríkis við bændur, félagasamtök og fleiri. 

„Þetta er spennandi vegferð sem við eigum framundan. Ég dreg þá ályktun, af þeim fundum sem ég hef átt við bændur og fleiri, að það er gríðarlegur áhugi á að taka þátt í þessu verkefni,“ segir Katrín.  

Slá tvær flugur í einu höggi 

Með verkefninu er lögð áhersla á að dregið er úr þeim losunum sem koma frá landi. „Það felst meðal annars í því að moka ofan í skurði og endurheima þar með votlendi. Það getur líka falist í því að ráðist í landgræðslu og skógræktaraðgerðir á landi sem er að losa  kolefni. Þannig sláum við tvær flugur í einu höggi. Bæði aukum bindinguna og lokað verður fyrir losunina,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra. Í þessu samhengi bendir hann á að litið hafi verið til alþjóðasamninga, skýrslna og loftslagssamningsins og þá strauma og stefnur í málaflokknum erlendis. 

Fjármagn fer í rannsóknir og vöktunarverkefni og þau verkefni sem eru þegar til staðar eins og t.d. Hekluskóga og Bændur græða landið.   

„Við erum líka að búa til ný verkefni sem eru í líkingu við Hekluskógaverkefnið. Við ætlum að hjálpa náttúrunni að hjálpa sér sjálfri, koma henni af stað,“ segir Guðmundur og nefnir t.d. að plantað verði trjátegundunum víði og birki með sérstökum aðferðum sem sá sér sjálf í kjölfarið. Áhersla er lögð á endurheimt votlendis og stefnt er að því að 45 hektarar á ári verði um 500 hektarar landsvæðis.   

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra. Blaðamannafundurinn fór fram í …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra. Blaðamannafundurinn fór fram í Elliðaárdal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur tekur í sama streng og Katrín um mikilvægi rannsókna og vöktunarverkefna. Rannsóknir eru mislangt á veg komnar til að mynda hefur skapast mikil þekking um árangur skógræktar en ekki eins góð þegar kemur að endurheimt votlendis, að sögn Guðmundar. „Áherslan er bæði á það að stofnanir fái aukið fjármagn til að fylgjast með árangri aðgerða en líka að veita fjármagni í grunnrannsóknir á því hversu mikið land og landgerðir losa af gróðurhúsalofttegundum og þá sérstaklega þær landgerðir sem hefur verið raskað,“ segir Guðmundur. 

Spurður hvort bændum verði gert að moka ofan í skurði til að endurheimta votlendi, segir hann að slíkt verði unnið í samvinnu við bændur. „Til að byrja með horfum við til þeirra sem vilja taka þátt. Við einbeitum okkur að svæðum þar sem ekki er ræktað land heldur þar sem landið er ekki í notkun,“ segir Guðmundur. 

Áætlað er að árlegur loftslagsávinningur af kolefnisbindingu og endurheimt votlendis verði um 50% meiri árið 2030 miðað við núverandi umfang. Ávinningurinn verður um 110% meiri árið 2050 eða um 2,1 milljón tonn af CO2 en þess má geta að árleg losun er 2,9 milljón tonn af CO2. 

„Það er langt síðan þvílíkt fjármagn hefur farið í þetta,“ segir Guðmundur um þá 2,1 milljarð króna á næstu fjórum árum sem renna til málaflokksins. 

Hér er hægt að skoða skýrsluna, Bætt landnýting í þágu loftslagsmála, kolefnisbinding og samdráttur í losun frá landi.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert