Eldum rétt og Mönnum í vinnu stefnt

Eldum rétt var eina fyrirtækið sem ekki gekkst við keðjuábyrgð …
Eldum rétt var eina fyrirtækið sem ekki gekkst við keðjuábyrgð sinni. mbl.is/​Hari

Eldum rétt og Mönnum í vinnu, ásamt forsvarsfólki fyrirtækjanna, hefur verið stefnt fyrir meðferð þeirra á rúmenskum verkamönnum sem hjá þeim störfuðu í vetur, en Eldum rétt keypti vinnuafl frá starfsmannaleigunni og bar með því ábyrgð á að kjör og aðstæður verkamannanna væru sómasamleg samkvæmt lögum um keðjuábyrgð.

Frá þessu er greint á vef stéttarfélagsins Eflingar, en þar segir að nokkur fyrirtæki hafi keypt vinnuafl frá Mönnum í vinnu.

Lögmannsstofan Réttur hafi að beiðni Eflingar farið fram á að þau ábyrgðust kaup og kjör starfsmannanna sem Menn í vinnu hefðu brotið á meðan þeir gegndu störfum fyrir umrædd fyrirtæki. Öll urðu þau við því nema Eldum rétt.

Dómsmálið snýst annars vegar um ólöglegan launafrádrátt, en á vef Eflingar segir að laun mannanna hafi í sumum tilvikum verið nálægt núlli vegna alls kyns frádráttar, svo sem vegna flugmiða, húsnæðis, aðgangs að bíl og líkamsræktarkorts, og hins vegar um þá vanvirðandi meðferð og þvingunar- og nauðungarvinnu sem mennirnir sættu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert