„Förum gegn eigendum persónulega“

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir mikilvægt að sýna að löggjöf …
Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir mikilvægt að sýna að löggjöf um keðjuábyrgð sé raunverulega beitt.

Efling er að mæta félagslegum undirboðum og vandamálum er tengjast starfsmannaleigum af meiri hörku en áður, segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við mbl.is. Verkalýðsfélagið hefur stefnt starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu fyrir brot á réttindum starfsmanna og viðskiptavini leigunnar, Eldum rétt, á grundvelli keðjuábyrgðar.

„Við sem stéttarfélag erum hér að ganga lengra en oft áður. Yfirleitt erum við bara að sækja launakröfur, en þarna erum við líka að tala um ólögmætan frádrátt, nauðung og slíka þætti auk þess sem við förum gegn eigendum fyrirtækisins persónulega og einnig notendafyrirtækjunum með vísun til keðjuábyrgðar,“ segir Viðar.

Lögmannsstofan Réttur fer með málið að ósk Eflingar og í umboði þessara starfsmanna sem um ræðir, útskýrir framkvæmdastjórinn.

Bera ábyrgð á kjörum

Í andstöðu við önnur fyrirtæki sem voru í viðskiptum við starfsmannaleiguna Menn í vinnu vildi fyrirtækið Eldum rétt ekki samþykkja ábyrgð á kaupum og kjörum þeirra sem unnu hjá fyrirtækinu í gegnum starfsmannaleiguna.

„Þau hafa öll, fyrir utan Eldum rétt, lýst því í svari við lögmannsstofuna sem er að vinna málið fyrir okkur að þau gangist við ábyrgð. Það eru mjög mikil vonbrigði að þetta fyrirtæki hafi gefið út þá afstöðu sína að það hyggst ekki gera það,“ segir Viðar. Þá segir hann Eflingu ekki hafa annan kost en að stefna fyrirtækinu.

„Málið snýst um það að notendafyrirtæki sem eru að kaupa sér vinnuafl frá starfsmannaleigu bera ábyrgð á kjörum þess fólks samkvæmt lögum,“ segir framkvæmdastjórinn.

Fælingaráhrif

Ný lög um keðjuábyrgð voru sett 2018 og var megininntak þeirra að rekstraraðili bæri lagalega ábyrgð á því að sá sem selur fyrirtækinu vinnuafl stundi ekki félagslegt undirboð.

Viðar telur löggjöfina mjög jákvæða þar sem hún dregur úr hvatanum til þess að nota starfsmannaleigur. Fyrirtæki eigi að spyrja sig mjög alvarlega hvers vegna þau kjósi slíka þjónustu frekar en að ráða fólk beint.

„Við viljum sýna það að þegar er búið að setja svona lög þá hafi þau þýðingu – að lögunum sé raunverulega beitt – og þeir sem þessi lög eiga að vernda geta treyst því að aðilar stigi fram af fullum krafti,“ segir framkvæmdastjórinn.

Spurður um árangur þess að stefna Mönnum í vinnu í ljósi þess að fyrirtækið virðist stefna í þrot og að Efling telji nýtt fyrirtæki vera stofnað af sömu aðilum í sama tilgangi með nýja kennitölu, segir Viðar „að kröfur verði sóttar af fullum krafti í þrotabú auk þess sem verið sé að horfa til ábyrgðar notendafyrirtækja. Þá sé Efling að „horfa til fordæmisgildis og fælingaráhrifa“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert