Fjöldi ferðamanna gæti verið takmarkaður á hverjum tíma á tilteknum stöðum innan Vatnajökulsþjóðgarðs og takmarkaður fjöldi leyfa veitt þeim fyrirtækjum sem þar starfa til að vernda náttúruna og stýra umferð og upplifun ferðamanna, samkvæmt nýsamþykktri atvinnustefnu Vatnajökulsþjóðgarðs. Í kjölfarið gæti þurft að fara í útboð vegna starfseminnar á þeim stöðum ef fleiri sækjast eftir að bjóða upp á þjónustu þar en leyfi eru fyrir.
Samkvæmt atvinnustefnunni, sem var samþykkt á fundi stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs 24. júní síðastliðinn, þurfa ferðaþjónustufyrirtæki sem starfa innan Vatnajökulsþjóðgarðs að gera samning um starfsemina og sækja um leyfi fyrir henni þar. Þetta er meðal annars gert til að ná yfirsýn yfir starfsemi þjónustufyrirtækja innan þjóðgarðsins, stýra ferðamönnum og vernda náttúruna.
Innleiðing atvinnustefnunnar hefst ekki fyrr en um næstu áramót. Einnig á eftir að samþykkja reglugerð um atvinnustefnuna og hægt er að senda inn umsagnir um hana til 6. ágúst á Samráðsgáttinni stjórnvalda.
Reglugerðin er nákvæmari og kveður nánar á um ýmis atriði svo sem útfærslu á atriðum eins og tegund og lengd samninga sem ferðaþjónustufyrirtæki fá vegna starfsemi sinnar. „Við sjáum ekki fyrir okkur mikla gjaldtöku með leyfinu heldur fyrst og fremst svokölluð þjónustugjöld,“ segir Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.
Frá síðustu áramótum hefur verið unnið ötullega að því að móta atvinnustefnuna. Samráð var haft við atvinnulífið, ferðaþjónustufyrirtæki, hagsmunasamtök o.fl. „Ég held að það sé almenn sátt um stefnuna. Hún byggir á almennum reglum um jafnræði, gegnsæi og miðlun upplýsinga. Þetta er eins og nútímastjórnsýsla á að vera,” segir Magnús.
Vatnajökulsþjóðgarður er stór, rúm 14% af flatarmáli Íslands eða 14.701 ferkílómetrar, eftir nýlega stækkun hans þegar m.a. Herðubreiðarlindir og Ódáðahraun voru innlimuð í hann.
Svæðin eru misjöfn eins og þau eru mörg og sum þeirra eru mjög viðkvæm og því gæti þurft að takmarka aðgang að þeim, að sögn Magnúsar. Hann tekur fram að hann reikni ekki með að þetta verði stórt vandamál því garðurinn sé stór og segir þetta ávallt samspil náttúruverndar og stjórnsýslu.
Í þessu samhengi bendir hann á köfun í Silfru í Þjóðgarðinum á Þingvöllum. Þar eru veitt leyfi til ferðaþjónustufyrirtækja og fjöldatakmarkanir eru í gildi með tilliti til öryggi fólks og að skaða ekki náttúruna.
Magnús segir ekki útilokað að fólk þurfi að greiða ákveðið gjald til að heimsækja tiltekna staði innan þjóðgarðsins. „Þetta er hluti af því sem við eigum eftir að móta. Almennt séð held ég að gjaldtakan verði hófleg,“ segir Magnús.
Við gerð atvinnustefnunnar var litið sértaklega til Nýja-Sjálands og Bandaríkjanna. „Við höfum ekki gert þetta áður og því þurfum við að þróa og aðlaga þessa aðferðarfræði. Það er hluti af þessari vinnu. Við sjáum ekki allt fyrir,“ segir Magnús.