Mahdi Sarwari var hjá geðlækni í dag á Landspítalanum. Meðferðin er ekki samtalsmeðferð hjá sálfræðingi heldur er henni ætlað, með öðrum leiðum en orðum vegna tungumálaörðugleika, að róa 10 ára afganska drenginn, sem er illa haldinn af kvíða vegna fyrirhugaðrar brottvísunar hans og fjölskyldu hans úr landi.
Til stóð að vísa Sarwari-feðgunum úr landi í blábyrjun mánaðar en af því varð ekki vegna þess að Mahdi þarfnaðist aðhlynningar geðlæknis vegna ofsakvíðans. Næst fer hann til læknis á föstudaginn en ákvörðun Útlendingastofnunar stendur þó óbreytt: feðgarnir fá ekki efnislega meðferð.
Eftir að UNICEF gaf sig á tal við Reykjavíkurborg um mál feðganna, hefur borgin boðið þeim bræðrum Mahdi og Ali Sarwari að taka þátt í sumarfrístundunum í frístundamiðstöð í Grafarvogi. Sú félagsmiðstöð er í samstarfi við skóla drengjanna, Hamraskóla, og þar fer fram eins konar leikjanámskeið í þessari viku og næstu en hefur staðið í allt sumar.
Í endurupptökubeiðni þeirri sem Magnús Davíð Norðdahl lögmaður feðganna hefur sent kærunefnd útlendingamála segir að Mahdi glími við alvarleg einkenni kvíða og depurðar auk einhverra áfallaeinkenna. Mat læknanna Þóru Kristinsdóttur og Ólafs Heiðars Þorvaldssonar sérfræðilæknis hafi verið á þá leið að Mahdi hafi uppfyllt skilmerki þess sem á ensku heitir „depressive episode“ þegar hann frétti að honum ætti að vísa úr landi frá vinum og skóla.
Mat geðlæknis og hjúkrunarfræðing á BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítalans, hafi verið það að Mahdi sé ekki í ástandi til þess að fara í flug vegna vanlíðunar og mikils kvíða.
Á þessum grundvelli leggur Magnús fram endurupptökubeiðnina til kærunefndar útlendingamála en ekki liggur fyrir hvenær hún mun vinna úr beiðninni. Útlendingastofnun hefur þegar synjað feðgunum um efnislega meðferð en í bréfi Magnúsar til kærunefndarinnar segir að það væri „andstætt lögum og alþjóðlegum skuldbindingum íslenskra stjórnvalda að senda alvarlega veik eða viðkvæm börn frá landinu til Grikklands þar sem ógnanir og ofbeldi gagnvart flóttafólki hefur verið vaxandi vandamál.“
Magnús segir í endurupptökubeiðninni að 2 mgr. 36. gr. laga um útlendinga geti verið túlkuð í þessu tilviki sem gild ástæða til þess að taka mál feðganna til efnislegrar meðferðar hjá Útlendingastofnun en í þeirri málsgrein kemur meðal annars fram að taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd „til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar aðstæður mæla annars með því.“ Veikindi drengsins og tengsl við landið geti gilt sem sérstakar ákvarðanir eins og hér er kveðið á um.
Magnús vill meina að vilji löggjafans „til að útvíkka gildissvið ákvæðisins miðað við eldri framkvæmd og meta aðstæður í viðtökuríki með hliðsjón af aðstæðum einstaklings“ liggi fyrir.