Félagsmálaráðuneytið hefur haft mál starfsmannaleigunnar Manna í vinnu til skoðunar frá því í apríl og hefur enn ekki komist að niðurstöðu, að því er fram kemur í skriflegu svari félagsmálaráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is.
Þann 16. apríl var sagt frá því að Vinnumálastofnun hafi veitt starfsmannaleigunni stjórnvaldssekt sem nam 2,5 milljónum króna. Voru forsvarsmenn Manna í vinnu sagðir hafa kært ákvörðunina til félagsmálaráðuneytisins og farið fram á að sektin verði annaðhvort felld niður eða lækkuð verulega.
Er leitað var til félagsmálaráðuneytisins og spurt um stöðu málsins, svaraði Vera Einarsdóttir upplýsingafulltrúi: „Þessu máli er ekki lokið, það er í vinnslu og niðurstaða liggur ekki fyrir.“
Fram kom í umfjöllun mbl.is í dag að fyrirtækinu hefur verið stefnt af hálfu Eflingar vegna meintra brota á réttindum starfsmanna.