Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi alþingismaður fyrir Pírata og fyrrverandi Pírati, er aftur orðin Pírati. Hún stefnir á að taka sæti í trúnaðarráði flokksins, eins og kom fyrst fram á vef Hringbrautar. Það þarf „að láta hlutina tengjast betur og grasrótina fá meira vægi,“ segir hún.
Þetta veldur ekki ólgu innan flokksins en sé svo er það eðlilegt, að sögn Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata. „Það er og verður alltaf „ólga“ í stjórnmálaflokkum,“ segir hann í athugasemd við færslu á Pírataspjallinu um málið.
Í þeim Facebook-hópi deilir maður nokkur frétt af DV, þar sem talað er um ólgu innan Pírata vegna endurkomu Birgittu. „Eitthvað mikið í gangi?“ er spurt. „Ekkert mikið, bara virk stjórnmálahreyfing og fjölmiðlar að selja sig,“ er svarað og þar mælir Albert Svan umhverfislandfræðingur sem hefur verið á lista hjá flokknum.
Birgitta sjálf leggur sjálf orð í belg og þakkar „félögum“ fyrir stuðninginn. „Það er hvorki meira né minna stuð en oft áður. Vantar bara að láta hlutina tengjast betur og grasrótina að fá meira vægi,“ segir hún í athugasemd.
Birgitta var ein af stofnendum stjórnmálaflokksins hér á landi árið 2012 og leiddi uppbyggingu hans. Hún hætti í flokknum síðasta vor, sagði þá ákvörðun „létti“. Nú er hún snúin aftur.
Ekki náðist í Birgittu við vinnslu fréttarinnar.