Skemmdir víðar en á Grænahrygg

Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun telur líklegt að skemmdirnar …
Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun telur líklegt að skemmdirnar muni jafna sig að fullu. Ljósmynd/Aðsend

Land­verðir í friðland­inu að Fjalla­baki, hvar ut­an­slóðar­hjól­reiðar í Sveins­gili skyldu eft­ir sig slóð, hafa nú kannað umfang skemmdanna og lagað það sem hægt var að laga. Málið er nú hjá Umhverfisstofnun og verður ákvörðun tekin um framhald þess í vikunni. 

Ólafur A. Jónsson, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun telur líklegt að skemmdirnar muni jafna sig að fullu. 

Þetta voru töluvert greinileg för eftir þessi reiðhjól og ekki …
Þetta voru töluvert greinileg för eftir þessi reiðhjól og ekki bara á einum stað. Ljósmynd/Aðsend

„Það fóru landverðir á vegum Umhverfisstofnunnar þarna innúr með verkfæri til að afmá þessar skemmdir eins og hægt er. Þeir unnu í rúmlega tvo tíma með hrífum og kústum og það gekk svona bærilega. Það er ekki hægt að ná öllu en við fáum flug yfir á næstu dögum til að sjá hvort að rigning hafi hjálpað okkur að jafna þetta eitthvað út,“ segir Ólafur. 

„Við sjáum fyrir okkur að þetta nái svona að mestu að jafna sig með þessum aðgerðum okkar.“

Ólafur segir að um nokkuð umfangsmeiri skemmdir hafi verið að ræða en fyrst var talið.

Umhverfisstofnun mun kanna málið nánar áður en ákvörðun um kæru …
Umhverfisstofnun mun kanna málið nánar áður en ákvörðun um kæru verður tekin. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta voru töluvert greinileg för eftir þessi reiðhjól og ekki bara á einum stað. Það eru nokkrir hryggir þarna með giljum á milli og það voru í rauninni för á öllum þremur hryggjunum.“

Aðspurður um framhald málsins segir Ólafur Umhverfisstofnun vera að kanna málið nánar áður en ákvörðun um kæru verði tekin, en sérstakar reglur gilda um náttúruspjöll innan friðlands. 

„Ferlið hjá okkur er þannig að landverðir eru nú búnir að fara á staðinn og þeir upplýstu okkur um eðli skemmdanna og reyna að lagfæra það sem þeir geta á meðan þeir eru á staðnum. Þeir eru nú að vinna að skýrslu fyrir okkur sem við munum síðan meta í framhaldinu og hvort að það sé ástæða fyrir okkur að fara áfram með málið til lögreglu og kæra verknaðinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka