Meirihluti borgarráðs Reykjavíkur samþykkti nýtt deiliskipulag fyrir Stekkjarbakka á fundi sínum fyrr í dag. Þetta staðfestir Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, í samtali við mbl.is. Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir að meirihlutinn hafi samþykkt uppbyggingu atvinnuhúsnæðis og bílastæða á svæðinu þrátt fyrir andstöðu Sjálfstæðisflokksins og hávær mótmæli íbúa og Hollvinasamtaka Elliðaárdals.
Í færslu sinni segir Hildur að Umhverfisstofnun hafi gert fjölþættar alvarlegar athugasemdir við uppbygginguna - meðal annars að rask verði á vatnasviði Elliðaánna og útivistarsvæðið skert verulega. Hún segir að þeim athugasemdum hafi ekki verið svarað og borgin ekki fundað með Umhverfisstofnun.
„Umhverfisáhrif framkvæmdanna skiptu meirihlutaflokkana engu. Við erum verulega sorgmædd vegna áformanna enda höfum við ítrekað lagt til friðlýsingu Elliðaárdalsins,“ segir meðal annars í færslu Hildar.
Fundargerð borgarráðs frá fundinum í dag hefur ekki verið birt og leitaði fréttastofa því til fulltrúa borgarráðs þessu til staðfestingar. Dóra Björt Guðjónsdóttir, fulltrúi Pírata í borgarráði, sagðist í samtali við mbl.is ekki getað staðfest þessa yfirlýsingu Hildar.
„Það var samþykkt deiliskipulag þar sem verið er að skipuleggja svæði í Elliðaárdalnum, ekki uppbygging á atvinnuhúsnæði heldur deiliskipulag fyrir mögulega uppbyggingu,“ segir Dóra Björt. Spurð hvort að sú mögulega uppbygging fæli meðal annars í sér atvinnuhúsnæði svaraði hún:
„Það er ýmislegt sem stendur til. Það er til dæmis skipulagt svæði fyrir garðyrkjufélagið og svo er gerð ráð fyrir gróðurhúsi. En það er auðvitað að uppfylltum skilyrðum í deiliskipulagi sem eru mjög ströng hvað varðar til dæmis ljósastýringu. Þessi tillaga er mjög breytt frá upphaflegri tillögu.“
Þá bætti hún við að svæðið væri í raun ekki í Elliðaárdalnum heldur upp á Stekkjarbakkahálsi og svæðið væri fyrir utan það útivistarsvæði sem stendur til að friðlýsa.