Brottförum fækkaði um 16,7% í júní

Frá áramótum hafa 900 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi …
Frá áramótum hafa 900 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll. mbl.is/Eggert

Brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll voru 195 þúsund í júnímánuði eða um 39 þúsund færri en í júní á síðasta ári. Nemur fækkunin 16,7% samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia.

Fækkun hefur verið alla aðra mánuði frá áramótum, en í janúar fækkaði brottförum um 5,8%, í febrúar um 6,9%, í mars um 1,7%, í apríl um 18,5% og í maí um 23,6%. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í júní, eða 31% allra brottfara, en þeim fækkaði um 35,1% á milli ára. 

Frá áramótum hafa 900 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll, en það er 12,4% fækkun miðað við sama tímabil í fyrra.

Þjóðverjar voru í öðru sæti yfir fjölmennustu þjóðernin sem fóru frá landinu um Keflavíkurflugvöll í júní og þar á eftir komu Bretar. Þar á eftir fylgdu Kínverjar, Pólverjar, Frakkar, Kanadamenn Svíar, Norðmenn og loks Danir.

Um 64 þúsund Íslendingar fóru utan í júní í ár eða 9% færri en í júní 2018. Frá áramótum hafa 307 þúsund Íslendingar farið utan eða 4,9% færri en á sama tímabili í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert