Þingflokkur Pírata fordæmir fyrirhugaðar brottvísanir flóttabarna til Grikklands þar sem aðstæður eru fullkomlega óboðlegar börnum. Allar helstu mannréttindastofnanir eru samhuga um að aðstæður flóttafólks í Grikklandi séu það slæmar að ekki eigi að endursenda flóttamenn þangað, sér í lagi börn eða aðra hópa í sérstaklega viðkvæmri stöðu.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá þingflokki Pírata.
Þingflokkur Pírata lýsir yfir djúpum vonbrigðum með ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sem þvert á stefnu Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs hyggst líta undan börnum í neyð og senda þau í óviðunandi og ómannúðlegar aðstæður í Grikklandi.
Enn fremur segir að óljós áheit um endurskoðun á framkvæmd útlendingalaga, rýnihópar og nefndir eigi ekki við þegar um yfirvofandi mannréttindabrot íslenskra yfirvalda gagnvart börnum sé um að ræða.
„Brottvísanir barna til Grikklands standast hvorki Barnasáttmála né Flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna og þýðir ekkert að skýla sér bak við Dyflinnarreglugerðina til þess að réttlæta mannréttindabrot gegn börnum,“ segir í yfirlýsingu.
Fram kemur að þetta viti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir dómsmálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mætavel. Þær eru hvattar til að beita sér samstundis fyrir því að hætta öllum brottvísunum barna til Grikklands, sem og Ítalíu, þar sem aðstæður séu álíka slæmar.
„Meðvituð ákvörðun um annað stefnir lífi, framtíð og velferð barna í hættu og sú ákvörðun verður á ábyrgð þeirra sem valdið hafa en aðhafast ekkert. Brottvísanir barna eru pólitískt val Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur og Katrínar Jakobsdóttur. Við biðjum þær um að velja mannúð og samkennd og virðingu fyrir mannréttindum barna. “