Fyrirhuguð afgreiðsla á nýju deiliskipulagi fyrir Stekkjarbakka í dag er að sögn Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokks í Reykjavík, gerð í skjóli þess að borgarstjórn er í fríi.
Eyþór segir deiliskipulagið stórmál fyrir alla borgarbúa, en fyrirhuguð er uppbygging á um 43 þúsund fermetra lóð þar sem meðal annars stendur til að reisa 4.500 fermetra gróðurhús og 4.432 fermetra bílastæði. Þá er fyrirhugað að um 18 þúsund fermetra verslunarrými rísi á svæðinu sem er í jaðri Elliðaárdals.
„Þrátt fyrir verulegar athugasemdir bæði Umhverfisstofnunar og íbúa á að samþykkja þetta, jafnvel þótt borgarstjórn sé í fríi. Við erum á því að það eigi að hlusta á íbúana og að náttúran eigi líka að njóta vafans,“ segir Eyþór, en minnihlutinn í borginni greiddi atkvæði gegn deiliskipulaginu í umhverfis- og skipulagsráði í síðustu viku. Eyþór segir að málið komi „á hraðferð“ inn í borgarráð. „Þetta er stórt svæði í jaðri Elliðaárdalsins og er landfræðilegur hluti dalsins. Þarna er verið að opna heimildir fyrir tugi þúsunda fermetra af atvinnustarfsemi. kkur finnst það stílbrot að fara af stað með það,“ segir Eyþór í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Athugasemdir frá 56 aðilum bárust vegna deiliskipulagsins, meðal annars frá Hollvinasamtökum Elliðaárdals. Halldór Páll Gíslason, formaður samtakanna, undrast það að málið eigi að „drífa í gegn“ meðan sumarfrí standi yfir.