Leggja til gjaldskyldu á sunnudögum

Gjaldskrá bílastæða mun taka breytingum ef tillögur stýrihóps um stefnumörkun …
Gjaldskrá bílastæða mun taka breytingum ef tillögur stýrihóps um stefnumörkun í bíla- og hjólastæðamálum ganga í gegn. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Stýrihópur um stefnumörkun í bíla- og hjólastæðamálum á vegum skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar lagði í gær til tillögur að bættri stefnu í stýringu bílastæða. Tillögurnar fela meðal annars í sér að gjaldskyldutími bílastæða verði lengdur og að gjaldskylda verði tekin upp á sunnudögum.

Á fundi skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar í gær voru málefni tengd vistvænum fararmátum og gangandi vegfarendum fyrirferðarmikil. Verklagsreglur um stýringu gjaldskyldra bílastæða, uppbygging hjólaskýla við Háskólann í Reykjavík og skipulagslýsing fyrir varanlega göngugötu á Laugavegi voru meðal mála á dagskrá.

Tillögur um stefnumörkun í bílastæða- og hjólastæðismálum

Á síðasta ári var stofnaður stýrihópur um stefnumörkun í bílastæða- og hjólastæðismálum sem fékk þau verkefni að leggja fram ný viðmið um fjölda bíla- og hjólastæða fyrir skipulagsgerð og við útgáfu byggingarleyfa sem og verklag við fjölgun gjaldskyldusvæða. Þá var honum gert að  endurskoða gjaldskrár og gjaldskyldutíma bílastæða.

Hópurinn skilaði af sér skýrslu og kynnti tillögur sínar sem fela í sér eftirfarandi:

  • Verð gjaldskyldra bílastæða stuðli að því að bílastæðanýting á borgarlandi sé um 85%, eða 1-2 laust bílastæði á skilgreindum götulegg/svæði.
  • Gjaldskyldutíminn sé lengdur og gjaldskylda tekin upp á sunnudögum þar sem þörf er á til að stýra bílastæðanýtingu með skilvirkari hætti en í dag eru fjölmargar verslanir, veitingastaðir og kaffihús opin í miðbænum á sunnudögum, ólíkt því sem áður var.
  • Gjaldskrá bílastæða verði breytt árlega byggt á gögnum sem safnað er reglulega.
  • Setja megi kvöð um hámarkstíma ökutækja í bílastæðum til að tryggja að bílastæði við verslanir og þjónustu séu fyrst og fremst nýtt af viðskiptavinum.

Tillögunum var í framhaldinu vísað til meðferðar hjá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar.

Skipulagslýsing fyrir Laugaveg sem göngugötu

Á fundinum í gær var samþykkt að kynna framlagða lýsingu skipulagsfulltrúa vegna nýs deiliskipulags fyrir Laugaveginn sem göngugötu sem er í samræmi við samþykkt borgarstjórnar Reykjavíkur. Markmiðið er að skipuleggja varanlegar göngugötur á Laugavegi, Bankastræti og Skólavörðustíg.

„Hvern einasta daga erum við að byggja upp og bæta innviði fyrir vistvæna fararmáta í borginni og gefa þeim meira pláss, því að framtíðin felst í fjölbreytileikanum,“ er haft eftir Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur formanni skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar í fréttatilkynningu.

Lagt er til að varanlegum regnboga verði fundinn staður á …
Lagt er til að varanlegum regnboga verði fundinn staður á neðri hluta Skólavörðustígs. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Hjólaskýli við Háskólann í Reykjavík

Umsókn Arkís arkitekta varðandi breytingu á deiliskipulagi Háskólans í Reykjavík var lögð fram á fundinum í gær. Í henni felst að afmarkaðir verði þrír byggingarreitir fyrir hjólaskýli á lóð háskólans. Á fundinum var samþykkt að falla frá grenndarkynningu vegna umsóknarinnar.

Varanlegur regnbogi og verklagsreglur fyrir hjólaleigur

Einnig var samþykkt að varanlegum regnboga verði fundinn staður á neðri hluta Skólavörðustígs sem verður málaður með slitsterkri málningu í sumar. Málinu var í kjölfarið vísað til borgarráðs.

Þá voru verklagsreglur um stöðvarlausar hjólaleigur samþykktar og vísað til borgarráðs. Tilgangur þeirra er að tryggja gagnsætt og opið verklag þegar þjónustuaðili óskar eftir að starfrækja stöðvalausa hjólaleigu með reiðhjólum, hlaupahjólum eða öðrum sambærilegum léttum farartækjum, án fastra hjólastöðva innan borgarlands Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert