Landsréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms um farbann yfir konu, sem var í apríl gripin með um 7.000 oxycontin-töflur í fórum sínum. Konan verður í farbanni til 26. júlí eða þar til dómur fellur í máli hennar.
Konan, sem er búsett erlendis en með lögheimili á Íslandi, kom hingað til lands frá Spáni 19. apríl og hafði þá falið 7.000 oxycontin-töflur í fóðri ferðatösku sinnar. Hún hélt því fram að ferðataskan væri í eigu einhvers annars og að hún hafi vitað um „einhvern varning“ í töskunni en ekki hve mikið það væri.
Hún hafði áður verið úrskurðuð í farbann til 22. maí, en farið var fram á framlengingu þar sem málsmeðferð tafðist. Unnið er að því að rannsaka hugsanleg tengsl konunnar við vitorðsmenn á Íslandi og erlendis. Þá sé skýrslu tæknideildar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um töflurnar beðið.
Um sé að ræða „verulegt magn hættulegra lyfja“ en götuvirði taflnanna mun vera yfir 50 milljónir króna.