Borgarráð hefur samþykkt samhljóða að ganga til samninga við Knattspyrnufélagið Víking um að félagið taki við rekstri íþróttamannvirkja í Safamýri þegar Fram hefur alfarið flutt starfsemi sína í Úlfarsárdal á allra næstu árum. Núverandi grasæfingasvæði í Safamýri verða tekin til annarrar þróunar, eins og það er orðað í samþykkt borgarráðs.
Það var einróma álit stýrihóps um íþróttastefnu að ganga skuli til samninga við Knattspyrnufélagið Víking um að þjónusta Safamýri til framtíðar.
Litið var til samgangna, hverfisskiptinga og sterkrar framtíðarsýnar félagsins fyrir Safamýrarsvæðið. Jafnframt væri tryggt jafnvægi milli hverfisfélaga. Tillagan skapi einnig svigrúm til annarrar uppbyggingar á svæðinu.
Nauðsynlegt sé að Knattspyrnufélagið Fram, Knattspyrnufélagið Víkingur, fulltrúar íbúa, ÍBR og íþrótta- og tómstundasvið hefji þegar þessa breytingu á íþróttastarfi í Safamýri. Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði er falið að sinna stefnumótun og eftirliti með verkefninu af hálfu borgarinnar.
Undanfarin misseri hafa framkvæmdastjóri ÍTR og fulltrúar ÍBR átt samráð við fulltrúa íþróttafélaga, fulltrúa Fram og íbúa í Safamýri um framtíðarfyrirkomulag íþróttastarfs í hverfinu eftir að Fram flytur starfsemi sína í Grafarholt og Úlfarsárdal. Af hálfu íbúa hafa skoðanir aðeins verið skiptar um hvaða félag væri best til að þjóna svæðinu en samstaða hefur verið um að því fyrr sem það liggi fyrir, því betra.
Stýrihópur um framtíðarstefnu í íþróttamálum, sem settur var á laggirnar í kjölfar samþykktar borgarstjórnar sl. haust, hefur haft málið til umfjöllunar og m.a. hitt fulltrúa félaga sem áhuga hafa haft á að þjóna Safamýri, ásamt því að hitta fulltrúa íbúa á svæðinu. Það voru fyrst og fremst Valur og Víkingur sem sýndu því áhuga að taka verkefnið að sér.
Í áfangaskýrslu hópsins er það einróma niðurstaða hans að leggja til að gengið verði til samninga við Víking. „Ef tryggja á jafnvægi milli íþróttafélaga þegar kemur að íbúatölu á bak við hvert félag er heppilegra að stækka svæði þeirra félaga sem minni eru, í þessu tilfelli svæði Víkings,“ segir í tillögu borgarstjóra, sem samþykkt var í borgarráði sl. fimmtudag. Með því að semja við Víking um þjónustu við Safamýrarsvæði falli allt skólahverfi Háaleitisskóla undir þjónustusvæði sama hverfisíþróttafélags, sem myndi teljast kostur við þá ráðstöfun, að mati borgarstjóra.
Íþróttamannvirki Víkings eru við Traðarland í Fossvogsdal. Hverfi Víkings hefur til þessa fyrst og fremst verið Fossvogurinn og Smáíbúða- og Bústaðahverfi. Eftir stækkun mun Víkingssvæðið markast af Suðurlandsbraut í norðri, Kringlumýrarbraut í vestri, sveitarfélagsmörkum við Kópavog í suðri og Reykjanesbraut í austri.
Staða íþróttafélaga í Reykjavík er sem hér segir:
• Í núverandi hverfi Víkings eru um 9.000 íbúar og samkvæmt áætlunum munu þeir verða 14.500 miðað við nýja hverfaskiptingu.
• Til samanburðar eru Valur, KR, Þróttur, Ármann, ÍR og Fjölnir með á bilinu 17.000 til 21.000 íbúa. Fylkir og Fram eru með færri íbúa bak við sig eða 8.000–12.000.
• Ef Valur tæki yfir núverandi Fram-hverfi yrði Vals-hverfið með 24.000 íbúa. Að auki er umtalsverð uppbygging væntanleg á Hlíðarenda sem myndi hækka íbúatölu í hverfi Vals umtalsvert en uppbygging af sambærilegri stærðargráðu er ekki fyrirsjáanleg á núverandi svæði Víkings.
Þær eru samkvæmt samningi Reykjavíkurborgar við Fram sem samþykktur var í borgarráði 2017. Kostnaðaráætlun hljóðar upp á rúma 4,6 milljarða króna. Framkvæmdir eiga að hefjast í ágúst 2019 og þeim skal verða lokið í maí 2022.
Úlfarsárdalur verður svæði Framara til framtíðar. Félagið er nú þegar með öflugt starf í hverfinu, meðal annars barna- og unglingastarf.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.