Hjálmar Friðbergsson, maðurinn á bak við vefinn Iðnaðarmenn Íslands (https://idnadarmennislands.is/), hefur ákveðið að útvíkka starfsemina og efna til keppni um fljótasta iðnaðarmann Íslands.
Hún snýst ekki um hver er fljótastur að saga spýtu, mála vegg eða úrbeina naut heldur um hlaup upp og niður Helgafell í landi Hafnarfjarðar.
„Verkefni Iðnaðarmanna Íslands er að aðstoða almenning við að finna mann með réttindi í lögverndaðri iðngrein, einhvern sem má og kann. Hlaupakeppnin er liður í því að tengja saman menntun, iðngreinar og íþróttir,“ segir Hjálmar.
Þátttakendur í hlaupinu verða að sýna fram á meistara- eða sveinsbréf í einni af um 50 löggiltum iðngreinum hérlendis. Forkeppni stendur yfir frá 10. júlí til 20. ágúst nk. og mega þátttakendur hlaupa eins oft og þeir vilja. Þeir skrá tímann hverju sinni og senda inn upplýsingar með skjámynd af tímanum úr appi eins og til dæmis strava runkeeper. Úrslitahlaupið fer síðan fram laugardaginn 31. ágúst og þá keppa þeir sem eru með bestu tímana, tíu karlar og tíu konur.
Sjá viðtal við Hjámar í heild á baksíðu Morgunblaðsins í dag.