Stakksberg ehf. hefur opnað samráðsgátt vegna vinnslu frummatsskýrslu umhverfismats kísilverksmiðju fyrirtækisins í Helguvík. Með samráðsgáttinni vill Stakksberg stuðla að auknu samráði við almenning, umfram það sem lög og reglur gera ráð fyrir.
Fram kemur í tilkynningu frá Stakksberg að þetta er í fyrsta sinn sem framkvæmdaraðili stendur fyrir samráði með þessum hætti á meðan á vinnslu frummatsskýrslu stendur. „Með auknu samráði vonast Stakksberg til þess að fram komi athugasemdir frá almenningi sem stuðli að betri og vandaðri frummatsskýrslu,“ segir í tilkynningu.
Í apríl síðastliðnum féllst Skipulagsstofnun á tillögu Stakkabergs ehf., með athugasemdum, á matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum kísilversins í Helguvík.
Skipulagsstofnun telur að vinna þurfi sérstaklega að kynningu og samráði gagnvart íbúum við vinnslu frummatsskýrslu svo hægt sé að reka verksmiðjuna í sátt við íbúa svæðisins. Í frummatskýrslu þarf að koma fram hvernig þessum þætti hafi verið sinnt og sérstök áhersla lögð á samráð um þau atriði sem áhyggjur íbúa beinast einna helst að.
Rekstur kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík gekk brösuglega frá upphafi. Á ofnum hennar var ítrekað slökkt og tugir kvartana frá íbúum yfir mengun frá henni bárust. Rekstri hennar var að lokum hætt og fyrirtækið úrskurðað gjaldþrota í byrjun síðasta árs.
Samráðsgátt Stakksbergs sækir fyrirmynd sína í samráðsgátt stjórnvalda. Öllum er frjálst að senda inn athugasemd eða ábendingu en til þess þarf að skrá sig inn með innskráningarkerfi island.is, Íslykli eða rafrænum skilríkjum. Líkt og í samráðsgátt stjórnvalda eru athugasemdir í samráðsgátt Stakksbergs birtar opinberlega og undir nafni.
Þrjú mál hafa nú þegar verið birt í samráðsgátt Stakksbergs: Samfélagsleg áhrif, ásýnd og hljóðvist. Fleiri atriði matsins verða birt eftir því sem vinnu við frummatsskýrslu vindur fram
Samráðsgáttin er aðgengileg á slóðinni samrad.stakksberg.is.
Að samráðstímabili loknu verður gerð grein fyrir úrvinnslu athugasemda með samantekt á síðu hvers máls. Tekið verður tillit til athugasemda við vinnslu frummatsskýrslu eins og við á og auk þess mun samantekt fylgja sem viðauki við skýrsluna. Þegar frummatsskýrslu hefur verið skilað til Skipulagsstofnunar verða mál á samráðsgátt Stakksbergs, ásamt athugasemdum og öðru innsendu efni, tekin úr birtingu.