„Þetta er þeirra taktur“

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins.

„Svona mál eiga að fara í borgarstjórn þar sem við getum rætt um þau opinskátt og í beinni útsendingu. Þetta er ekkert smámál, en þetta er þeirra taktur, að læðast með hlutina og keyra þá í gegn,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins og áheyrnarfulltrúi í borgarráði þar sem tillaga um breytingu á deiliskipulagi Stekkjarbakka var samþykkt í gær.

„Mér snöggbrá þegar skyndilega átti að greiða um þetta atkvæði á fundi borgarráðs. Svo var bara atkvæðagreiðsla og þau eru með meirihlutann svo þarna er bara allt klárt. Maður verður alveg máttlaus,“ segir Kolbrún í samtali við mbl.is.

Hún segist algjörlega á móti tillögunni, að málið sé alltof stórt og mikið og að slíkt eigi að fara í íbúakosningu.

Kolbrún lagði fram bókun á fundi borgarráðs í gær, þegar búið var að samþykkja tillöguna. Þar segir hún Elliðaárdalinn skipta marga tilfinningamáli og að um sé að ræða svæði fullt af dýrmætu lífi.

„Um þetta verður aldrei friður nema að haft verði fullt samráð við áhugahópa, hagsmunahópa og aðra sem óska eftir að hafa skoðun á málinu.“

Þá setur hún sérstaklega út á samþykkt þess efnis að veita félaginu Spor í sandinn vilyrði fyrir lóð í Stekkjarbakka til að byggja gróðurhvelfingu. „Þetta er afar umdeilt mannvirki. Hér er um að ræða 20 metra hátt mannvirki, hjúpað gleri. Borgarmeirihlutinn virðist vera sérlega hrifinn af háum glerhjúpamannvirkjum,“ skrifar Kolbrún, og segir skemmst að minnast verksins Pálma í Vogahverfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert