Vatnajökulsþjóðgarður varð í dag þriðja náttúrusvæðið á Íslandi sem kemst á heimsminjaskrá Unesco. Skráin telur yfir 1.000 staði um allan heim en staðir á listanum njóta verndar samkvæmt alþjóðasamningum. Surtsey er skráð sem einstakur staður í jarðfræði og Þingvellir í flokki menningarminja.
Vatnajökulsþjóðgarður var í hópi 35 tilnefninga sem farið var yfir á heimsminjaráðstefnu Unesco í Bakú í Aserbaídsjan í dag. Þjóðgarðurinn fellur undir náttúrusvæði, ekki síst vegna samspils eldvirkni og jökla sem og loftslags og jökulíss.
Alls voru fimm tilnefningar samþykktar á ráðstefnunni í dag og óhætt er að segja að Vatnajökulsþjóðgarður hafi aldrei verið í jafn fögrum og sögufrægum félagsskap. Hér að neðan má sjá stutta samantekt á þeim fjórum svæðum sem voru tekin inn á heimminjaskrá Unesco í dag, auk Vatnajökulsþjóðgarðs.
Fornaldarborgin í Mesópótamíu, Babýlon, komst loks á heimsminjaskrá í dag en stjórnvöld í Írak hafa barist fyrir því í tæplega 40 ár að borgin, sem er um fjögur þúsund ára gömul, hljóti þessa viðurkenndu gæðavottun. Borgin er þekkt fyrir svokallaða Hengigarða, sem voru eitt af sjö undrum veraldar til fornaldar.
Leifar af borginni má enn sjá í borginni Al Hilla í Babil-fylki, um það bil 80 kílómetrum frá Bagdad. Babýlon hefur þó þurft að finna fyrir því á síðustu árum, fyrst sökum byggingaframkvæmda á höll í valdatíð Saddam Hussein og síðar vegna veru bandaríska hersins í borginni.
Kerguelen-eyjar, Crozet-eyjaklasinn, Saint-Paul og Amsterdam-eyjaklasinn ásamt 60 suðurskautseyjum sem eru undir yfirráðum Frakka voru teknar inn á heimsminjaskrána og falla undir náttúrusvæði, líkt og Vatnajökulsþjóðgarður. Eyjarnar telja alls yfir 67 milljón hektara og þar er að finna heimkynni fjölda fugla og sjávardýra. Hvergi í heiminum búa til að mynda fleiri kóngamörgæsir og gulnefja albatrosar.
Strandbærinn Paraty og eyjan Ihla Grande eru staðsettar mitt á milli Atlantshafsins og fjallaþjóðgarðsins Serra da Bocaina og fær viðurkenningu á heimminjaskrá bæði vegna einstakrar náttúru og menningarminja. Paraty er heimkynni fjölda dýrategunda, þar á meðal nokkurra í útrýmingarhættu, til dæmis jagúars, pekkarísvíns og köngulóarapa. Á 17. öld var Paraty endapunktur Caminho do Ouro-siglingaleiðarinnar, eða gullnu leiðarinnar, þar sem gull var flutt til Evrópu í gegnum siglingaleiðina.
Svæðið samanstendur af fimm járn- og málmvinnslusvæðum sem staðsett eru víðs vegar í landinu. Á elsta svæðinu, Douroula, hófst málmvinnsla á 8. öld fyrir krist og er það elsta heimild um járnvinnslu í heiminum.