Uppbygging í Elliðaárdal samþykkt

Í Elliðaárdal.
Í Elliðaárdal. mbl.is/Kristinn Magnússon

Meirihluti borgarráðs samþykkti deiliskipulag Stekkjarbakka 73þ, sem tilheyrir Elliðaárdal, á borgarráðsfundi í gær.

Í deiliskipulaginu felst uppbygging á lóð sem spannar um 43 þúsund fermetra, þar sem gert er ráð fyrir bílastæðum, gróðurhvelfingu og verslunarrými.

Málið fór fljótt í gegn þrátt fyrir andstöðu margra gegn skipulaginu að sögn Hildar Björnsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Hollvinasamtök Elliðaárdalsins hyggjast knýja fram íbúakosningu um málið. Hildur segist vonsvikin yfir því að málið hafi verið afgreitt í sumarfríi borgarstjórnar:

„Þá er sá hátturinn hafður á að það er lítil umræða um málið en undir venjulegum kringumstæðum færi umræðan inn í borgarstjórn. Það hafa sjaldan ef nokkurn tímann áður komið fram svo margar neikvæðar athugasemdir og umsagnir um breytingar af þessu tagi. Það merkilega með þessa flokka sem kenna sig við umhverfisvernd er að Umhverfisstofnun var ekki einu sinni boðuð á fund og athugasemdum hennar ekki svarað,“ sagði Hildur.

Komu til móts við umsagnir

Spurð hvort hægt hefði verið að koma meira til móts við áhyggjur íbúa og Hollvinasamtaka Elliðaárdals segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, að það hafi verið gert.

„Þetta er allt saman í gögnum málsins. Það var farið í gegnum allar ábendingar og umsagnir. Það var farið í gegnum það í þrjátíu liðum og komið heilmikið til móts við þær umsagnir sem komu frá öllum ábendingaraðilum. En við erum alveg skýr með það að við viljum gjarnan þróa upp græna og skemmtilega starfsemi á Stekkjarbakkanum,“ segir Þórdís.

Hún býr sjálf á svæðinu og segist ánægð með að Stekkjarbakkinn, sem hefur verið „hálfgerð eyðimörk“, verði nú að skemmtilegu svæði fyrir alla sem er tengt niður í Elliðaárdalinn. Spurð hvort hún telji að þessi breyting muni skaða græna svæðið í dalnum svarar hún því neitandi. „Bara alls ekki, þetta skipulag fer bara ekkert ofan í Elliðaárdal. Þetta er í algjörri samfellu við það fallega svæði sem Elliðaárdalurinn er. Þarna verður garðrækt, matvistargarðar, gróðurhús, kaffihús og góðir hjólreiða- og göngustígar. Þetta er falleg uppbygging á svæði sem ekkert hefur verið gert við í 30 ár og hefur verið í órækt,“ segir Þórdís.

Þórdís Lóa segir að Stekkjarbakkinn hafi verið „hálfgerð eyðimörk.“ Gróðurkort …
Þórdís Lóa segir að Stekkjarbakkinn hafi verið „hálfgerð eyðimörk.“ Gróðurkort af svæðinu sýnir þó annað. Gróðurkort af Elliðaárdal/Náttúrufræðistofnun Íslands

Hafði miklar efasemdir fyrst

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri-grænna, segist hafa legið lengi yfir málinu áður en hún tók afstöðu til deiliskipulagsins.

„Þetta er náttúrlega mjög umdeilt mál og ég skil það mjög vel. Ég hafði í fyrstu miklar efasemdir en ég algjörlega lagðist yfir þetta og ég get ekki séð eftir mikla yfirlegu, bæði sviðsins og annarra, að þetta stríði gegn t.d. aðalskipulaginu, loftslagsstefnu borgarinnar eða grænum svæðum hennar. Ég tel þetta mjög framsýna viðbót,“ segir Líf. Hún telur einnig að með þessu muni fleiri sækja í náttúruna á svæðinu en ella.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert