Vatnajökulsþjóðgarður hefur verið tekinn inn á heimsminjaskrá UNESCO. Þetta var samþykkt á þingi heiminjastofnunarinnar í morgun. Þykir þetta mesta gæðavottun sem náttúrusvæði getur hlotnast og bætist garðurinn nú í hóp ekki ómerkari þjóðgarða en Yosemite og Yellowstone í Bandaríkjunum og Galapagos í Ekvador.
Talið er víst að skráningin verði til þess fallin að auka áhuga erlendra ferðamanna, ekki síst kröfuharðra náttúruferðamanna, á verndarsvæðinu og kröfur verði meiri um vandaða miðlun fræðslu um þjóðgarðinn og hvers vegna hann er kominn á skrána.
Vatnajökulsþjóðgarður er stærstur þjóðgarða á Íslandi og þekur um 14% af flatarmáli landsins en jökullinn sjálfur er rúmur helmingur þess svæðis. Jökullinn er stærstur evrópskra jökla að rúmmáli, og einnig að flatarmáli ef Norðuríshafseyjar eru ekki taldar til álfunnar.
Þar er hæsti tindur Íslands, Hvannadalshnúkur og auk þess nokkrar virkustu eldstöðvar landsins, til að mynda Grímsvötn, Bárðarbungu og Gjálp. Þá hefur þess verið beðið um nokkurt skeið að Öræfajökull, stærsta eldjall landsins, gjósi eftir jarðskjálftahrina hófst þar 2016. Fjallið hefur aðeins tvisvar gosið frá landnámi, 1362 og 1727, og var það fyrrnefnda sennilega mannskæðasta gos Íslandssögunnar. Um 20 til 40 bæir sópuðust burt í ægilegu gjóskuhlaupinu og lagðist byggð í Litla-Héraði af. Hefur sveitin eftir það verið nefnd Öræfi.
Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin (IUCN) mæltu með því í umsögn sinni að þjóðgarðinum yrði bætt á listann. Var þeim tilmælum þó beint til stjórnvalda að lokið verði sem fyrst við endurskoðun stjórnunar- og verndaráætlunar garðsins, og mannauður þjóðgarðsins verði efldur, bæði með tilliti til heilsárs- og tímabundins starfsfólks, ekki síst við Jökulsárlón þar sem einnig þurfi að bæta aðstöðu ferðamanna. Þá þurfi að efla aðgerðir sem hindra utanvegaakstur.
Skráningin hefur í för með sér að uppfæra þarf öll skilti garðarins og koma á þau alþjóðlegu merki heimsminjastaða.
Jökulsárgljúfur og Ásbyrgi, ein stórbrotnustu útivistarsvæði landsins, fá ekki að fljóta með heimsminjaskráningunni að sinni. Ástæða þess eru viðræður við landeigendur á svæðinu sem standa friðun fyrir þrifum, en í Morgunblaðinu í dag segir Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, að áfram verði unnið að þeim málum. Auðvelt verði þó að bæta Jökulsá á Fjöllum og Jökulsárgljúfrunum við heimsminjasvæðið þegar öll áin hefur verið friðuð frá upptökum.