Samþykkt var að Vatnajökulsþjóðgarður yrði skráður á heimsminjaskrá UNESCO á heimsminjaráðstefnu samtakanna í Bakú í Aserbaídsjan rétt í þessu.
Þar með er Vatnajökulsþjóðgarður kominn í hóp merkustu þjóðgarða heims ásamt Yellowstone í Bandaríkjunum og Galapagos í Ekvador, svo fáein dæmi séu nefnd.
Til að komast á heimsminjaskrá UNESCO þarf staður eða fyrirbæri sannanlega að hafa það sem kallað er einstakt gildi á heimsvísu, sem aftur kallar á alþjóðlega vernd, en í tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs var lögð áhersla á rekbeltið, heita reitinn undir landinu og eldstöðvakerfi í gosbeltunum ásamt samspili elds og íss sem talið er einstakt á heimsvísu.
Vatnajökulsþjóðgarður er þannig orðinn þiðji heimsminjastaðurinn á Íslandi, en Surtsey er fyrir á skrá sem náttúrustaður vegna einstæðrar jarðfræði, og Þingvellir sem menningarminjar.