Fyrirtækið Eldum rétt hafnaði í gær sáttatilboði Eflingar – Stéttarfélags. Er þetta í annað sinn sem fyrirtækið hafnar sáttaboði Eflingar en það neitaði að gangast við lögbundinni ábyrgð sem notendafyrirtæki í máli fjögurra starfsmanna sem fyrirtækið leigði frá starfsmannaleigunni Mönnum í vinnu í vetur.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eflingu.
Þar segir að mennirnir fjórir hafi verið látnir sæta þvingun, vanvirðandi meðferð og brotið hafi verið á ýmsum réttindum þeirra í samræmi við kjarasamninga.
Fram hefur komið að Efling hefur falið lögfræðistofunni Rétti að sækja rétt mannanna fjögurra gagnvart starfsmannaleigunni og fyrirtækjunum sem skiptu við hana.
Fulltrúar Eflingar og Eldum rétt funduðu í gær en þeim fundi lauk með því að forsvarsmenn fyrirtækisins höfnuðu sáttatilboði Eflingar. „Afstaða fyrirtækisins er Eflingu vonbrigði, en hún er sama marki brennt og ummæli Kristófers Júlíusar í fjölmiðlum, þar sem höfð eru mörg orð um ábyrgð annarra en eigin ábyrgð hafnað,“ kemur fram í yfirlýsingu Eflingar.
„Nú er stór samfélagsleg umræða í gangi um meðferð á erlendu verkafólki og ábyrgð þeirra sem nýta sér hana. Það eru mjög mikil vonbrigði að Eldum rétt taki þennan pól í hæðina,“ er haft eftir Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar. „Við höfum ný lög sem eiga að bæta þá takmörkuðu vernd sem innflutt vinnuafl nýtur, lög um keðjuábyrgð, en Eldum rétt notar þetta fyrsta tækifæri til að sverja þá ábyrgð af sér.“
Haft er eftir Viðari Þorsteinssyni, framkvæmdastjóra Eflingar, að það sé athyglisvert hversu mikill ásetningur virðist að baki viðbrögðum Eldum rétt. „Það blasir við að Eldum rétt tekur mjög einarða afstöðu með rétti atvinnurekenda til að misnota og svíkja starfsfólk, og tekur virkan þátt í þeim leik að hver aðilinn bendi á hinn. Allar smugur eru nýttar til að skjóta sér undan ábyrgð.“
Bent er á að hagnaður Eldum rétt árin 2016 og 2017 hafi verið rétt tæpar 160 milljónir króna. Sáttatilboð Eflingar hefði kostað fyrirtækið fjórar milljónir.