Innrás íslenskra dansara

Íslenskir keppendur halda íslenska fánanum á lofti á sviði í …
Íslenskir keppendur halda íslenska fánanum á lofti á sviði í Braga í Portúgal en þar var haldin heimsmeistarakeppni í dansi í vikunni.

Í Braga í Portúgal var Dance World Cup haldið í tíunda sinn í vikunni en danskeppni þessi er sú stærsta í heimi fyrir ungt fólk á aldrinum 4-25 ára. Ísland tók þátt í fyrsta skipti en haldin var glæsileg forkeppni á Íslandi í mars. Tíu íslenskir dansskólar fóru til Portúgal, alls 120 dansarar. 

Smá kúltúrsjokk

Keppt var í sóló dansi, dúettum, tríóum og minni og stærri hópum í fjölmörgum dansstílum.

„Þetta er ótrúlega skemmtilegt og frábært að sjá okkar dansara ná mjög góðum árangri í keppninni því við erum nýliðar hér. Það er auðvitað smá kúltúrsjokk að sjá dansmenninguna baksviðs, því þar labbaði maður bara beint í flasið á alvöru dansmæðrum sem eru búnar að líma gerviaugnhárin á litlu stúlkurnar sem eru stífmálaðar, sumar í flegnum kjólum og í raun ætlast til þess að þær geri ekkert annað en að vinna sinn flokk. Það eru fáir strákar hér, en þannig er nú dansheimurinn, bæði hér og heima. Fyrir okkur er þetta svakalegur lærdómur og auðvitað skemmtun, því við leggjum mikla áherslu á það að standa okkur vel, sýna okkar besta og hafa gaman. Stelpurnar eru mjög duglegar að hvetja hina dansskólana, því hér komum við fram eins og landsliðið í dansi í þessum aldurshópi,“ segir Birna Björnsdóttir danskennari og eigandi Danskóla Birnu Björns.

Birna Björnsdóttir og stelpurnar sem kepptu í dansi voru í …
Birna Björnsdóttir og stelpurnar sem kepptu í dansi voru í miklu stuði í Portúgal.

„Keppnin er algjörlega til fyrirmyndar, allt skipulag mjög gott og dansinn á miklu hærri „standard“ en við áttum von á,“ segir Guðný Ósk Karlsdóttir, danskennari og einn af fararstjórum Dansskóla Birnu Björns.

Svakaleg keyrsla

Magdalena Höskuldsdóttir, 16 ára, er meðal keppenda. „Það er búið að vera mjög gaman og svo er lærdómsríkt að sjá hin atriðin,“ segir hún og bætir við að íslensku krakkarnir séu að kynnast krökkum frá ýmsum löndum.

„Það eru rosalega margir hérna og svakaleg keyrsla; atriði eftir atriði,“ segir hún og nefnir að þrjár stúlkur úr Dansskóla Birnu Björns hafi landað fjórða sætinu af 36 atriðum um síðustu helgi. Þess má geta að Íslendingar hafa unnið eitt gull í Street Dans Flokki, nokkur silfur og brons og má því segja að árangur íslenska hópsins sé afar góður.

Magdalena Höskuldsdóttir dansari og Salka Hjálmarsdóttir litla systir keppanda, voru …
Magdalena Höskuldsdóttir dansari og Salka Hjálmarsdóttir litla systir keppanda, voru sælar í Braga í Portúgal.

 „Okkur Íslendingunum hefur gengið svo vel hérna úti sem er svo gaman af því þetta er í fyrsta skipti sem við erum að keppa,“ segir Magdalena.

Hér er hægt er að horfa á dansa íslenska hópsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert