„Kannski mistök sem eru orðin hefð“

Helgi Hrafn Gunnarsson telur brýnt að rannsaka hvað er að …
Helgi Hrafn Gunnarsson telur brýnt að rannsaka hvað er að fara úrskeiðis í meðferð mála hælisleitenda. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér finnst svolítið skrýtið að það sé ekki búið að svara,“ segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata og nefndarmaður í allsherjarnefnd Alþingis. Hann óskaði fyrir helgi eftir fundi í allsherjarnefnd til þess að ræða sérstaklega hagsmuni barna í málefnum flóttamanna.

Helgi telur að kanna þurfi hvað hafi farið úrskeiðis í kerfinu þegar dregin var sú ályktun að hagsmunum afgönsku barnanna, sem þar til fyrir stuttu átti að senda úr landi til Grikklands, væri best borgið með þeim hætti.

„Eitthvað er að og við þurfum að vita hvað það er,“ segir Helgi í samtali við mbl.is. Hann segir að komast þurfi til botns í því hvar brotalömin í ferlinu liggi, fyrst hægt var að komast að þeirri niðurstöðu að senda börnin til Grikklands. 

„Það er ekkert að ástæðulausu að helstu mannréttindasamtök mæli gegn því að fólk sé flutt til Grikklands,“ segir Helgi. Hann furðar sig á því hvernig komast mátti að þeirri niðurstöðu að senda börnin þangað, eins og stóð til. „Það stenst ekki hugsun og hvað þá skoðun að þar sé verið að gæta hagsmuna barna, en þeir eiga að hafa forgang samkvæmt lögum,“ segir hann og vísar þar í barnasáttmálann sem lögfestur er hér á landi.

Helga grunar að ákvarðanatakan hafi verið röng, sem leiddi til þess að vísa átti börnunum úr landi. „Við þurfum að vita á hvaða stigi þetta mat átti sér stað. Hvernig rökstuddu þeir sem gerðu það matið?“ spyr hann.

Ekki eitthvað sem maður lagar með reglugerð

„Kannski eru þetta einhver mistök sem eru orðin að hefð. Annar möguleiki eru einhverjar mótsagnir í lagatexta,“ segir Helgi en hvað sem því líði verði að finna hvar sá galli liggur í kerfinu sem leiddi til þess að þetta gat gerst.

Dómsmálaráðherra stytti tímarammann niður í 10 mánuði, sem hælisleitendur með vernd í öðru landi þurfa að hafa dvalist hér á landi til að fá efnislega meðferð. Helgi segir að þar með sé þeirri spurningu ekki svarað, hvernig komist var að niðurstöðunni upprunalega að senda börnin til Grikklands.

„Þetta þarf allsherjarnefnd að funda um, til að vita hvað fór úrskeiðis þarna. Koma þarf auga á mistökin og koma því svo á framfæri við framkvæmdarvaldið,“ segir Helgi. „Þetta er ekki eitthvað sem maður lagar með reglugerð.“

Hann bíður boðanna frá nefndinni. Enginn fundur er á dagskrá sem stendur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert