SGS styður baráttu Eflingar

Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS, segir að beita þurfi lögum um …
Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri SGS, segir að beita þurfi lögum um keðjuábyrgð af meiri hörku. mbl.is/Eggert

Beita þarf lögum um keðjuábyrgð af meiri hörku, að sögn Flosa Eiríkssonar, framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins. „Við teljum að stjórnvöld hafi ekki sinnt sínum skyldum í þessu. Verkalýðshreyfingin hefur lengi bent á að það er víða pottur brotinn hjá starfsmannaleigum,“ segir Flosi í samtali við mbl.is. 

Starfsgreinasambandið sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem sambandið lýsir „stuðningi við baráttu Eflingar og annarra stéttarfélaga við að tryggja réttindi launafólks“. Efling stefndi á dögunum fyrirtækjunum Mönnum í vinnu og Eldum rétt vegna brota á réttindum starfsmanna.

„Þó að þetta séu nú félagar okkar í Eflingu þá gætu trúlega flest félög innan Starfsgreinasambandsins sagt svipaðar sögur og hafa tekið svipaða slagi, svoleiðis að þetta er veruleiki sem við þekkjum og er afar miður að það nánast alltaf bitnar á erlendu fólki,“ segir Flosi.

Hann segir jafnframt brotlegan rekstur starfsmannaleigna einnig hafa neikvæð áhrif á aðra á vinnumarkaði. „Það er hætta á því að verið sé að grafa undan kaupi og kjörum fólks. Starfsmannaleigur almennt séð gera þetta víða í heiminum, þær bjóða vinnuafl á lágum kjörum og undirbjóða þau kjör sem eru á hverjum markaði fyrir sig. Þannig vinna þær gegn því velferðarsamfélagi sem við viljum byggja hér upp.“

„Ítrekuð brot ólíðandi“

Í yfirlýsingu Starfsgreinasambandsins segir að „starfsmannaleigur hafa verið að ryðja sér til rúms á íslenskum vinnumarkaði í auknum mæli á undanförnum misserum og hafa komið upp allt of mörg alvarleg tilvik um brot á réttindum og kjörum starfsfólks á þeirra vegum“.

Fram kemur að fyrirtæki sem nota starfsmannaleigur bera fulla ábyrgð samkvæmt lögum um keðjuábyrgð og að það sé „algjörlega ólíðandi að það sé ítrekað brotið á erlendu starfsfólki sem kemur hingað til lands á vegum starfsmannaleiga“.

Kveðst Starfsgreinasambandið ætla að „nota öll tæki og aðferðir sem það hefur yfir að ráða til að stöðva slíkt háttalag og standa þétt við bakið á félagsmönnum og stéttarfélögum í þeirri baráttu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert