„Þetta er bara formsatriði núna,“ segir Magnús Davíð Norðdahl, lögmaður Sarwari-feðganna, sem stefndi í að vísa ætti úr landi í mánuðinum þar til reglugerð um efnismeðferð flóttamanna var breytt.
Magnús telur að krafa sem hann hefur sent inn til Útlendingastofnunar um að feðgarnir fái efnislega meðferð verði samþykkt, það sé bara spurning um tíma. Hvort feðgarnir fái eftir efnismeðferðina vernd hér á landi er önnur spurning en Magnús er þó vongóður um það.
Í lögunum er sett sem skilyrði að umsækjendur um efnislega meðferð hafi ekki sjálfir valdið töfum á afgreiðslu umsóknar sinnar. Í kröfum Magnúsar, sem mbl.is hefur undir höndum, eru umbjóðendur hans sagðir ekki hafa tafið málið á nokkurn hátt. Því standi ekkert í vegi fyrir að málin verði tekin til efnislegrar meðferðar.
„Þeim er ekki stætt á öðru nú en að veita þeim efnislega meðferð, en síðan tel ég að ekki sé tilefni til annars á síðari stigum málsins en að fallast á að veita báðum fjölskyldum vernd,“ segir Magnús, sem er einnig lögmaður Zainab Safari og fjölskyldu hennar.
Skemmra er síðan Safari-fjölskyldan kom til landsins en Sarwari-fjölskyldan en hin fyrrnefnda mun falla undir reglugerðina nú á fimmtudaginn. Þá sendir Magnús inn sömu kröfu fyrir hönd hennar og er ekki síður vongóður um að hún fái vernd eftir efnislega meðferð en Sarwari-feðgar.
Enn ríkir þó óvissa um hvort fjölskyldurnar fái vernd hér á landi, en þær eru báðar með vernd í Grikklandi. Tækt hefur þótt að senda fjölskyldur til Grikklands héðan hafi þær fengið þar alþjóðlega vernd. Hins vegar eru fjölskyldur ekki sendar þangað sem ekki hafa þar alþjóðlega vernd.
„Ég tel að líkur standi til þess að þau fái alþjóðlega vernd hér á landi þegar þau fá efnislega meðferð,“ segir Magnús en áður en til þessa kom hafði fjölskyldunum báðum verið ítrekað hafnað um efnislega meðferð.
Útlendingastofnun var með breytingu á reglugerð fyrir helgi gert heimilt að taka til efnismeðferðar mál hælisleitenda „séu meira en 10 mánuðir liðnir frá því að umsókn barst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs“. Breytingin er stytting um tvo mánuði, þeir voru 12, sem þýðir að ætla megi að hún hafi verið gerð sérstaklega með hliðsjón af þessum tveimur málum.
Almennt segir Magnús þó að heildarendurskoðun þurfi á stöðu barna á flótta á Íslandi. „Maður auðvitað fagnar þessum breytingum, þar sem umbjóðendur mínir eru öruggir, en málaflokkurinn sem slíkur þarfnast verulegra úrbóta,“ segir hann.