Vilja að „allra leiða verði leitað“

Geðsvið Landspítalans.
Geðsvið Landspítalans. mbl,is//Hari

Stjórn Geðhjálpar hefur lýst yfir þungum áhyggjum af lokun tæplega helmings rúma á deild 33A á geðsviði Landspítalans í sumar, en alls verður 15 af 31 rúmi lokað. Skorar Geðhjálp á stjórnvöld að tryggja spítalanum nægilegt fjármagn til að halda uppi aðgengilegri og faglegri þjónustu allan ársins hring. 

Í tilkynningu Geðhjálpar segir að notendum og aðstandendum svíði sárt að sumarlokanir séu orðnar fastur liður í starfsemi geðsviðsins. Eru stjórnendur hvattir til að mæta starfsmannaeklu með því að bæta launakjör starfsmanna og mæta þörfum notenda með því að sækjast eftir starfsmönnum með fjölbreytta menntun og reynslu. 

Í tilkynningu segist Geðhjálp vilja minna á að geðræn veikindi beri að garði á sumrin eins og á öðrum tímum ársins. Hafa samtökin áhyggjur af því að sumarlokanir geti hækkað þröskuld inn í þjónustuna og aukið líkur á ótímabærum útskriftum sjúklinga. Brýnt sé að aðgengi að þjónustu geðsviðsins sé tryggt, enda sé ekki hægt að ganga að sambærilegri þriðja stigs þjónustu annars staðar. 

„Með sama hætti er athygli vakin á því að sumarlokanirnar komi harðar niður á notendum geðheilbrigðisþjónustunnar en ella því að á sama tíma dragi úr starfsemi göngudeildar sviðsins og ýmis fámennari úrræði innan félagageirans neyðist til að loka vegna sumarleyfa,“ segir í tilkynningu Geðhjálpar. 

Þá ítrekar Geðhjálp að leitað verði allra leiða til að tryggja nægilega góða mönnun á geðsviði Landspítalans svo að hægt sé að stuðla að eðlilegu aðgengi að þjónustunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert