Menntamálaráðuneytið hefur birt frumvarpsdrög nýrra laga um námsstyrkjakerfi Stuðningssjóðs íslenskra námsmanna (SÍN) í samráðsgátt stjórnvalda. Með frumvarpinu er lagt til að innleitt verði nýtt námsstyrkjafyrirkomulag samhliða námslánakerfinu.
„Þetta er róttæk breyting á núverandi fyrirkomulagi sem mun stuðla að lægri skuldsetningu námsmanna að námi loknu,“ er haft eftir Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra í frétt á vef Stjórnarráðsins. „Þetta er mikilvægt skref í þá átt að bæta kjör og aðstæður námsmanna líkt og fjallað er um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.“
Meðal helstu breytinga í frumvarpinu er að þeir lánþegar sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma geta fengið námsstyrk sem nemur 30% af höfuðstól námsláns þeirra. Styrkurinn verður í formi niðurfellingar sem kemur til framkvæmda að námi loknu.
Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að námsstyrkir verði veittir vegna framfærslu barna lánþega og þá munu lánþegar geta valið við námslok um hvort þeir endurgreiði námslán með óverðtryggðu eða verðtryggðu skuldabréfi.
Einnig er í frumvarpinu gert ráð fyrir að lánið sé að fullu greitt ekki síðar en þegar lánþeginn er 65 ára og greiðast námsláninn með mánaðarlegum afborgunum í stað tveggja afborgana árlega. Ljúki lánþegi námi fyrir 35 ára aldur getur hann valið hvort endurgreiðslan sé tekjutengd eða með jöfnum greiðslum.
Samkvæmt frumvarpsdrögunum verður framfærsla námsmanna almennt sú sama á Íslandi og erlendis, en stjórn SÍN er þó veitt heimild til að bæta við viðbótarláni sem miðast við kostnað og aðrar sérstakar aðstæður á hverjum stað.