Lokunin „mjög alvarlegar fréttir“

Geðsvið Landspítalans.
Geðsvið Landspítalans. mbl.is/Hari

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdarstýra Geðhjálpar, segir notendur og aðstandendur áhyggjufulla yfir lokun 15 rúma af 31 á deild 33A á geðsviði Landspítalans. Rúmunum var lokað frá og með 5. júlí og mun lokunin standa yfir í fjórar vikur. 

„Við höfum áhyggjur af því að þessi lokun valdi því að það sé hærri þröskuldur í þjónustuna. Eins að fólk sé útskrifað áður en það er tilbúið til,“ segir Anna, en deildin er móttökugeðdeild og samkvæmt úttekt Embættis landlæknis koma þangað oft alvarlega veikir einstaklingar. 

„Spítalinn bíður upp á þriðja stigs þjónustu þannig að það eru þeir sem eru alvarlega veikir sem þetta lendir á. Einhverjir gætu hugsanlega notað önnur úrræði en það er líka minni þjónusta annars staðar,“ segir Anna.

Anna Gunnhildur Ólafsdóttir.
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir. mbl.is/​Hari

20 rúmum lokað á geðsviði Heilsustofnunnar

„Þetta kemur sér sérstaklega illa því að á sama tíma er þjónusta göngudeildar geðsviðsins minni í sumar og mörg félagsleg úrræði að fara í sumarfrí. Ofan á þetta bætast síðan fréttir af því að það sé búið að loka 20 rúmum á geðsviði Heilsustofnunarinnar í Hveragerði sem eru mjög alvarlegar fréttir.

„Það skiptir máli og hefur áhrif á næsta hlekk þegar einn lamast,“ segir Anna og bætir við að lokunin í Hveragerði valdi miklum áhyggjum þar sem verið gæti að skerðingin á þjónustunni þar eigi ekki einungis að vara yfir sumarið. 

„Við höfum áhyggjur af því að það geti verið að Heilsustofnunin loki þessum 20 rúmum í geðendurhæfingarþjónustunni endanlega. Ef svo er viljum við að fjármagnið til þjónustunnar fari annað þar sem boðið er upp á samsvarandi þjónustu. Hún má alls ekki falla niður því hún er mjög þörf.“

Heilsustofnunin gerði í apríl samning við Sjúkratryggingar Íslands til þriggja ára, en samningurinn er upp á 875 milljónir króna og á um 20% þess fjármagns að fara á geðsvið stofnunarinnar. Segir Anna það gríðarlega mikilvægt að fjármagninu verði raunverulega ráðstafað í geðheilbrigðismál og ítrekar að ef stofnunin hyggst halda rúmunum lokuðum ætti fjármagnið að fara annað. 

Segir fólk vera áhyggjufullt 

Annar segir Geðhjálp ekki vita til þess að einhverjum hafi verið neitað um þjónustu eftir að hún var skert fyrir helgi. 

„Fólk hefur haft samband og verið með áhyggjur yfir þessari lokun en við höfum ekki fengið kvörtun um það að alvarlega veik manneskja hafi ekki fengið þjónustu út af þessari lokun. En það er náttúrulega nýbúið að loka þessum rúmum og fólk hefur áhyggjur af því. Við auðvitað vitum að heilbrigðisstarfsfólk gerir sitt besta til að meta sjúklinga mjög vel. 

„Við erum að ætla það að spítalinn meti vel þá sem óska eftir þjónustu og að það verði því ekki alvarlega atvik. En við höfum áhyggjur af því þegar það er fámennra á spítalanum að þröskuldurinn upp í þjónustuna sé hærri.“ 

Þá bendir Anna á að Geðhjálp bjóði upp á ráðgjöf og að fólk í sjálfsvígshættu geti fengið ókeypis sálfræðistuðning hjá Píeta. 

Fólk úr öðrum stéttum gæti komið sterkt inn 

Í tilkynningu sem Geðhjálp sendi frá sér í gær í kjölfar lokunarinnar, ítrekuðu samtökin að leitað yrði leiða til að tryggja nægilega góða mönnun á geðsviði Landspítalans svo að hægt sé að stuðla að eðlilegu aðgengi að þjónustunni. 

Anna segir Geðhjálp vilja hvetja stjórnendur sviðsins til að skoða kosti þess að mæta ólíkum þörfum sjúklinga með starfsmönnum með fjölbreytta menntun og reynslu. 

„Spítalinn segir að vandamálið sér skortur á hjúkrunarfræðingum og við höfum bæði bent á það að aðrar stéttir gætu hugsanlega komið sterkar inn í þjónustu við fólk. Svo höfum við líka bent á það að það hefur reynst vel til að mynda í Bretlandi og á meðal Norðurlandaþjóðanna að ráða fólk sem hefur sjálft svipaða reynslu sem ná þá oft mjög góðum tengslum við fólk sem er inniliggjandi útaf þessari sameiginlegu reynslu sem fólk hefur gengið í gegnum. 

„Að einhverju leyti er spítalinn að gera þetta en við hefðum viljað sjá meiri innspýtingu þarna og líka að það yrði meira horft til reynslu nágrannaþjóðanna varðandi ráðningar, þjálfun og menntunar þessa hóps,“ segir Anna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert